Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Fyrir þá sem eru að byrja að hlusta þá hef ég verið að fara í gegnum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann byggir á grunni sem er næstum 100 ára gamall en varð síðan að veruleika sem sáttmáli innan allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember 1989. Barnasáttmálinn er einn útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims og það er einungis eitt ríki sem hefur ekki skrifað undir hann, það eru Bandaríkin. Íslensk stjórnvöld fullgiltu barnasáttmálann í nóvember 1992 og þann 20. febrúar 2013 var hann lögfestur í íslensk lög. Það þýðir það að barnasáttmálinn hefur sömu lagalegu stöðu og önnur íslensk löggjöf. Ég var búinn að fara í það í minni síðustu ræðu hvernig 2. mgr. 2. gr. væri brotin í c-lið 8. gr. frumvarpsins.

Mig langar að fara í gegnum nokkrar aðrar greinar frumvarpsins sem snerta þetta frumvarp og þau málefni sem við erum að tala um. Í 1. mgr. 20. gr. sáttmálans segir, með leyfi forseta:

„Barn sem tímabundið eða til frambúðar nýtur ekki fjölskyldu sinnar, eða sem með tilliti til þess sem því sjálfu er fyrir bestu er ekki unnt að leyfa að sé lengur innan um fjölskyldu sína, á rétt á sérstakri vernd og aðstoð ríkisvaldsins.“

Í 2. mgr. segir:

„Aðildarríki skulu í samræmi við lög sín sjá barni sem þannig er ástatt um fyrir annarri umönnun.“

Það er mikilvægt að átta sig á að þarna er m.a. verið að tala um það sem í málefnum þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd er kallað fylgdarlaus börn. Þar erum við búin að fá á okkur þá skyldu, samkvæmt þessari grein, að veita þessum börnum sérstaka vernd og aðstoð ríkisvaldsins. Það er því ansi sorglegt að heyra um síendurtekin atvik þar sem Útlendingastofnun ákveður að horfa ekki á þessa grein heldur bíða eftir því að barnið falli ekki lengur undir barnasáttmálann, en í 1. gr. barnasáttmálans stendur:

„Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.“ — 18 ár á Íslandi.

En því miður eru ófá dæmi um það að Útlendingastofnun hafi hreinlega beðið jafnvel í eitt, tvö ár eftir því að barn verði 18 ára og þá látið það fara í gegnum ferlið sem fullorðinn einstaklingur og vísað því úr landi. Þetta eru börn sem hafa komið hingað fylgdarlaus, þ.e. alein, án fjölskyldu, án ættingja. Við bíðum bara eftir að þau verði 18 ára og hendum þeim þá út í kuldann eða á ruslahaugana í Grikklandi eins og gert var fyrir jól.

Ég veit ekki með ykkur en ég vil ekki samþykkja það að ríkt land eins og Ísland komi svona fram við börn og brjóti alvarlega gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Frú forseti. Næsta grein sem ég ætla að fjalla um er 22. gr., sem fjallar einmitt um börn á flótta. Ég óska eftir að fara aftur á mælendaskrá.