Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að tala um meðalhófsregluna, skráðu og óskráðu meðalhófsregluna, og var búin að fara ítarlega í gegnum það. Ég ætla bara að rifja upp: Óskráða reglan tekur til allra stjórnvaldsathafna á meðan skráða reglan um meðalhóf tekur aðeins til stjórnvaldsákvarðana. Svo reifaði ég álit umboðsmanns Alþingis varðandi síma eða lokun síma og talaði um áskoranir og Lögbirtingablaðið. Nú er ég, held ég, búin að fara svolítið ítarlega út í meðalhófsregluna og eins og ég sagði hér áðan þá vonast ég til þess að það verði skoðað sérstaklega hvort ákvæði laga um breytingu á útlendingalögum séu í samræmi við meðalhófsregluna og þá beitingu þessara heimilda sem fela í sér skerðingu á réttindum og þjónustu.

Næst er það skýrleikareglan. Ég er bara að tala um almennar reglur þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum til þess að sýna til hvers þurfi að líta þegar kemur að því að breyta lögum sem varða stjórnvöld og stjórnvaldsákvarðanir. Skýrleikaregla stjórnsýslulaga er óskráð meginregla sem felur í sér þá kröfu að stjórnvaldsákvörðun verði að vera efnislega bæði skýr og ákveðin. Reglan tekur til allra stjórnvaldsathafna, ekki bara stjórnvaldsákvarðana sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á borgarana með einum eða öðrum hætti. Grunnröksemdin að baki þessu öllu er í fyrsta lagi réttaröryggi borgaranna, að geta skilið ákvörðun. Þetta skýrir sig sjálft. Í öðru lagi er það að geta metið réttarstöðu einstaklings. Svo í þriðja lagi er það til að geta hagað ráðstöfunum sínum á upplýstan hátt. Bara svona til að taka dæmi þá ætla ég að skýra þetta með áliti umboðsmanns Alþingis, en það varðaði brottvísun nemanda úr skóla: Einstaklingur kvartaði vegna brottvísunar sonar úr skóla án þess að honum væri tryggt annað úrræði. Í áliti var ákvörðun tekin á grundvelli 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga þar sem einungis var um að ræða tímabundna brottvísun, en einstaklingnum eða foreldrinu var ekki gerð grein fyrir því. Í álitinu var kveðið á um að ákvörðunin skyldi tilkynnt forsjármönnum og fræðslustjóra tafarlaust. Þessi skylda leiðir af óskráðri grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr.

Ef einhver úr meiri hlutanum er horfa þá þarf ég ekkert að útskýra hvað ég meina með því að reifa þetta álit umboðsmanns Alþingis, við erum öll löggjafarvald hér og við erum öll að einhverju leyti lögfróð. Þess vegna þarf ég ekkert endilega að setja nákvæmlega þetta atriði í samhengi við útlendingalögin. Ég vona bara að skýrleikaregla stjórnsýslulaga og skýrleikaregla stjórnvalda við stjórnvaldsákvörðunina um réttindi og skyldur borgara sé höfð í fyrirrúmi af því að þetta er ekki lítilvæg reglna. Hún leiðir líka af leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga og hinni óskráðu skýrleikareglu að tjáskipti stjórnvalda við málsaðila verði alltaf, frá upphafi til lykta, að vera ákveðin og skýr. Þegar mál hefst að frumkvæði stjórnvalds, t.d. með auglýsingu, þarf hún að vera ákveðin og skýr. Það getur verið auglýsing ákvörðunar og einhverjum aðilum sem eru með lögvarða hagsmuni veittur frestur til að skila inn umsögnum eða athugasemdum varðandi þetta tiltekna mál. En þegar mál hefst að frumkvæði stjórnvalds, t.d. með tilkynningu, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, þá verður hún að vera efnislega ákveðin og skýr.

Mál er varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd hefst vissulega ekki að frumkvæði stjórnvalda en niðurstaðan þarf samt sem áður að vera ákveðin og skýr. Ég sé að ég er að renna út á tíma, virðulegi forseti, og óska þess að verða sett aftur á mælendaskrá.