Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef umfjöllun mína um samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk langar mig einfaldlega að rifja upp nokkur atriði í lögum um ráðherraábyrgð að gefnu tilefni. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.“

Ég held að það sé mikilvægt að muna þetta þegar við erum að fara í gegnum þetta frumvarp. Eins og við höfum bent á er ekki annað hægt að segja en að það sé ásetningur hjá ráðherra að koma með frumvarp sem stenst ekki stjórnarskrá eða önnur lög. Þess má geta að í þessum sömu lögum er það einnig gert refsivert að koma með slík lög til forseta lýðveldisins og láta hann skrifa undir lög sem ekki standast stjórnarskrána. Þetta er vert að hafa í huga, virðulegi forseti. Því miður gildir þetta bara um ráðherra en það er spurning hvort þetta ætti ekki líka að gilda um hv. þingmenn sem vísvitandi vinna svona.

En snúum okkur að réttindum fatlaðs fólks samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með samningnum er skilgreint í 1. gr. hans. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“

Í 2. gr. er síðan farið í alls konar hugtakaskilgreiningar en ég ætla ekki að fara í þær. Vonandi verða þau hugtök sem ég nota á hreinu. Í 3. gr. eru gefnar nokkrar almennar meginreglur og mig langar að lesa þær á þeim tíma sem ég hef hér afgangs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

a) virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga,

b) bann við mismunun,

c) full og árangursrík þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar,

d) virðing fyrir fjölbreytni og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni,

e) jöfn tækifæri,

f) aðgengi,

g) jafnrétti á milli karla og kvenna,

h) virðing fyrir stigvaxandi getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.“

Ég ætla ekki að byrja á næstu grein þar sem tíminn er ansi skammur en það eru þó nokkrar greinar í þessum samningi sem tengjast, eins og ég sagði hér áðan, meðhöndlun Útlendingastofnunar á fötluðu fólki.

Mig langar að biðja virðulegan forseta að bæta mér á mælendaskrá svo að ég geti farið betur í þau mál hér á eftir.