144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa hugleiðingu. Kannski er hægt að skipta gjaldtökuleiðum í þrennt, þ.e. að ferðamennirnir sjálfir greiði fyrir þjónustu, eins og ég gerði einkum að umtalsefni í minni ræðu, að fyrirtækin sjálf, sem hafa hagnað af því að starfa í ferðaþjónustu, greiði ákveðin gjöld fyrir; það er þessi nýsjálenska leið, sem ég gerði líka að umtalsefni í ræðu minni, sem mér finnst allt of snöggt skautað yfir í greinargerð með frumvarpinu. Ég legg ríka áherslu á að hv. atvinnuveganefnd kafi ofan í þá leið. Hún snýst um að fyrirtækin sem reka ferðaþjónustuna greiði tiltekið afnotagjald, getum við sagt, af náttúrunni.

Þriðja leiðin sem mér finnst vera lögð til hér — af því að þar eru í raun ekki hömlur á því hvernig við skilgreinum ferðamannastaði, þ.e. að þó að við sjáum fyrir okkur að þeir séu ekkert sérstaklega margir í byrjun er skilgreiningin mjög opin og þá erum við farin að leggja til gjaldtöku fyrir aðgengi. Það er ekki það sama og að greiða fyrir þjónustu. Ég held — af því að hæstv. ráðherra kom inn á það að henni fyndist mikilvægt að við ættum hér umræðu um þessi mál, að við reyndum að finna leiðir til að ná þessu sameiginlega markmiði — að við hljótum að velta fyrir okkur hvern við ætlum að láta borga. Ætlum við að láta fólk greiða fyrir þjónustuna, fyrir aðgengið eða ætlum við að láta fyrirtækin sjálf borga? Mér finnst sú leið sem hér er lögð til, sem snýst um að greiða fyrir aðgengi, sísta leiðin. Ég er hins vegar sammála því að það þarf að afla fjármuna í þessi mál og þá er spurningin hvort við viljum að einhverju leyti gera það með því að leggja kostnaðinn á fyrirtækin. Kannski skilar hann sér að einhverju leyti út í verðlagið, til þeirra sem nýta þjónustu þessara fyrirtækja, þannig að kannski leggst það óbeint á ferðamennina sjálfa. En þá þurfum við að hafa í huga, og kannski er það stóra málið, að gjaldtakan sé fyrir þjónustuna (Forseti hringir.) en ekki upplifunina.