148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru auðvitað nokkrar leiðir til í því. Það gæti t.d. verið góður bragur að því að allir þingflokkar sameinuðust um að taka ákvörðun um að vinna að málinu, að við gætum sameinast um það markmið að endurskoða kosningalögin og hugsanlega líka gera breytingar á stjórnarskránni vegna þess að við lækkum ekki kosningaaldur til Alþingis nema með breytingum á stjórnarskrá. Ég tel að formenn allra þeirra þingflokka sem hér eru geti vel komið sér saman um að skipa til verka fulltrúa allra þingflokka sem hafi það að markmiði að endurskoða kosningalögin, m.a. aldurinn, og hvort og með hvaða hætti við ætlum að lækka sjálfræðisaldurinn, vegna þess að ég skil ekki frekar en hv. þm. Bergþór Ólason hvernig það gengur upp að veita mönnum kosningarrétt en gefa þeim ekki sjálfræði til að beita þeim kosningarrétti eins og viðkomandi kjósandi telur rétt að gera, eða tryggja að hann fari með þann kosningarrétt sem frjáls einstaklingur. Það er auðvitað eitt af því sem truflar mig mjög þegar kemur að þessu frumvarpi.

Það sem truflar mig líka er þegar í ljós kemur að menn ætla að keyra mál af þessu tagi í gegn í ágreiningi og það er ekki lítill ágreiningur. Það er bara ágreiningur og það eru álitamál sem við eigum eftir að ræða, komast að niðurstöðu um. Ef menn ætla að gera það í ágreiningi í þessum efnum þá eru þeir að setja ný viðmið um það hvernig Alþingi Íslendinga ætlar í framtíðinni að standa að því að breyta lögum um kosningar.