148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þetta andsvar. Ég sé það þannig fyrir mér með þá fræðslu að hún yrði að vera fyrir hendi. Það hefur ekkert verið rætt um það, akkúrat þann vinkil, í þessari umræðu um þetta frumvarp.

Það verður að segjast eins og er að það má helst ekkert ræða þessi mál í skólum í dag nema að vissu leyti út frá vissum aðilum. Partur af því að vanda sig í þessu máli yrði sá að fræðsla til barna og unglinga yrði enn meiri í skólum. Ég nefndi einmitt í ræðu sem ég flutti hér áðan reynslu á öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku var horfið frá því að lækka kosningaaldur í 16 ár en gefið var í í fræðslu um pólitík, um stjórnmál, til þessa aldurshóps. Í könnunum mældist að áhuginn jókst við það. Danir lækkuðu ekki kosningaaldurinn í 16 ár heldur juku fræðslu, áróður getum við sagt, og þá jókst áhugi unglinga á stjórnmálum þó að þau hefðu ekki kosningarrétt.

Það var mín hugsun, fyrst þegar þetta mál kom fram í haust, að auka áhuga ungs fólks á pólitík. Að betur athuguðu máli er kosningaaldursmálið stærra en svo að hægt sé að afgreiða það að svo komnu máli.