149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með framlagningu þessa plaggs og með plaggið sjálft. Hér er vonandi á ferðinni lykilplagg fyrir okkur að horfa til til framtíðar í því hvernig við höfum heilbrigðisþjónustu í landinu, sem er afar mikilvægt. Ég fagna því að í stefnunni týni menn sér ekki í smáatriðum um einstaka stofnanir, einstaka þjónustuliði o.s.frv., heldur horfi vítt yfir sviðið. Það hefur einmitt svolítið skort á slíkt í íslensku heilbrigðiskerfi, að leyfa okkur að sjá heildarmyndina fyrir öllum eldunum sem brenna sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Þó að á þeim þurfi að taka og þá þurfi að slökkva mega eldar sem brenna ekki verða vitarnir sem við siglum eftir þegar við ákveðum hvernig við ætlum að hafa heilbrigðisþjónustuna í landinu. Við eigum að bregðast við þeim en ekki nota þá sem siglingamerki.

Ég get eiginlega ekki annað sagt að það sé að æra óstöðugan að ætla að afgreiða þetta plagg á tíu mínútum, en ég bý svo vel að eiga sæti í hv. velferðarnefnd og fæ því væntanlega nægan tíma til að ræða þetta þar. Það er ágætt. Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum og nái ég ekki að tæpa á öllum sem skipta máli verður það að hafa sig.

Fyrst er kafli um forystu til árangurs. Þar er þetta atriði með góða samvinnu milli heilbrigðis- og félagsþjónustu um að hlutverk og ábyrgð aðila verði skilgreind, m.a. vegna núnings sem oft er á milli ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Mikilvægt er að við setjum niður einhverja stefnu í því, að skilgreint verði hver eigi að gera hvað. Það er mikilvægt upp á alla þjónustu. Ríkja þarf samstaða um hvernig við forgangsröðum í kerfinu, það skiptir gríðarlegu máli eins og kemur fram í 4. tölulið kaflans.

Í öðrum hluta er m.a. farið í að skilgreina stig læknisþjónustunnar. Þarna er einn galli á áætluninni, ef hægt er að segja sem svo, en oft hefur verið rætt að taka eigi öldrunar- og hjúkrunarheimilaþjónustuna og skilgreina hana sem fyrsta stigs þjónustu, að heilbrigðisþjónusta við einhvern sem býr á hjúkrunarheimili sé fyrsta stigs þjónusta. Hún er ekki beinlínis heilsugæsla en í mínum huga er hún fyrsta stigs þjónusta. Það munum við væntanlega ræða í nefndinni.

Við viljum að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn, eins og við höfum oft talað um og áréttað er í stefnunni. Einnig er talað um umfang annars stigs þjónustu, sem í daglegu tali er kölluð sérfræðiþjónusta, og líka hvaða sérfræðiþjónustu ríkið eigi að kaupa inn á eigin stofnanir. Það er alls ekki gefið að ríkið sé með sérfræðiþjónustu alls staðar. Við erum það lítið samfélag að í stöku greinum er ekki hægt að veita þjónustuna nema á örfáum stöðum. Við þurfum að setja þetta niður fyrir okkur og á einhverjum tímapunkti vera sammála um það.

Varðandi biðtímann sem rætt er um í 8. tölulið í 2. kafla þá þurfum við að koma okkur niður á einhverja lendingu. Talað hefur verið um þrjá mánuð í vissum tilfellum, fleiri í öðrum og jafnvel færri í sumum greinum. Í tengslum við gerð heilbrigðisstefnu finnst mér að ráðuneytið ætti hreinlega að segja: Þetta er ásættanlegur biðtími eftir þessari tegund aðgerðar og við ætlum að reyna að vinna eftir því.

Ráðherra kom inn á teymisvinnu áðan. Það er alveg gríðarlega mikilvægur þáttur í nútímalæknisfræði og nútímaheilbrigðisþjónustu yfirleitt. Auðvitað eru mörg verk sem menn geta unnið einir og sér og allt í góðu með það, en það er óskaplega margt orðið í slíkri þjónustu sem krefst þess að margir fagaðilar komi saman. Þá skiptir miklu máli að bæði sé samstarf á milli fagaðila en líka á milli stofnana um notkun á þeim fagaðilum, af því að ekki geta allar stofnanir verið með alla fagaðila í vinnu á hverjum tíma.

Samræmd sjúkraskrá er nefnd í plagginu, sem skiptir miklu máli. Í því efni skiptir líka gríðarlegu máli að við finnum leið til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem eru í boði í samræmdri sjúkraskrá, einkum og sér í lagi vegna þess að við erum svo lítið samfélag. Við þekkjumst öll einhvern veginn eða erum skyld eða eitthvað þess háttar. Það getur verið gríðarlega viðkvæmt að upplýsingar fari á þvæling.

Ég er mjög ánægður að sjá neglt niður í stefnuna að kostnaður við skimanir eigi að vera á hendi ríkisins. Þannig náum við árangri eða aukum alla vega líkurnar á því að ná árangri í þeirri vinnu.

Markmiðið í greiðsluþátttöku er mjög göfugt, við ætlum að standa okkur best allra Norðurlanda. Það stendur reyndar ekki Norðurlanda heldur nágrannalanda en látum það liggja á milli hluta. Þetta skiptir miklu því að í því felst að við viljum að heilbrigðisþjónusta sé almannaréttur á Íslandi. Þess vegna skiptir svo miklu máli að kostnaður hindri ekki fólk í að sækja sér þjónustu. Þess vegna er það eitt af lykilatriðunum í stefnunni.

Í kafla sem heitir Hugsað til framtíðar er aðeins farið inn á menntun og þá þætti. Sérstakt ákvæði er í stefnunni um að heilbrigðisstarfsfólk hugi að menntun annarra heilbrigðisstarfsmanna. Miklu skiptir að sá eða sú sem ræður sig til starfa við heilbrigðisþjónustu geri ráð fyrir því að miðla þekkingu og reynslu. Vel kann að vera í einhverjum tilfellum að semja þurfi um það eða ganga frá því sérstaklega við fagfélögin. Ég veit að sum fagfélög eru með klausu um slíkt í samningum sínum en negla þarf niður í heilbrigðisstefnuna að þetta sé ein af grunnforsendum fyrir því að halda áfram að vera með gott heilbrigðiskerfi.

Síðasti punkturinn sem ég ætla að nefna er formlegt mat á gagnrýndu notagildi, sem er síðasti töluliðurinn í 7. kafla. Þá komum við að vissu leyti aftur inn á það að hlaupa ekki á eftir eldunum heldur gefa sér tíma til að skoða hvað búið er að sýna fram á að virki og virki ekki. Mjög mikilvægt er að við gerum það vegna þess að annars höfum við ekki neina stjórn á kostnaði, annars höfum við ekki neina stjórn á því hvert við förum með kerfið.

Ég geri ráð fyrir að fimm ára áætlanirnar sem talað er um verði að einhverju leyti ræddar í þinginu, a.m.k. skýrslur þeim tengdar þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) En vinnan er rétt að byrja og það verður gaman að vinna við plaggið í velferðarnefnd.