Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:28]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Til þess að ítreka þá punkta sem ég kom á framfæri hér áðan varðandi málsmeðferðarreglur stjórnvalda og að þetta frumvarp sé líklegt til að brjóta gegn þeim reglum er ég mætt með heimildir til að bakka upp það sem ég er að segja. Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, þá er ég ekki að segja bara eitthvað hérna uppi í pontu. Það er í alvörunni vit í því sem við Píratar erum að segja uppi í pontu og ég hvet meiri hlutann eindregið til að hlusta.

Ég ætla að lesa texta úr bók Páls Hreinssonar, „Stjórnsýsluréttur. Málsmeðferð“. Þar er kafli sem heitir Réttaröryggi, með leyfi forseta:

„Eins og áður segir er réttaröryggi borgaranna í skiptum við stjórnvöld meginmarkmið stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við frumvarp til stjórnsýslulaga er þó ekki skilgreint sérstaklega hvað felst í hugtakinu „réttaröryggi“. Hið sama er raunar að segja um flest lagafrumvörp, sem lögð eru fram á Alþingi á ári hverju, og rökstudd eru með vísan til þess, að þeim sé ætlað að stuðla að (auknu) réttaröryggi. Virðist því almennt talið að mönnum blandist ekki hugur um við hvað er átt, þegar hið gildishlaðna hugtak „réttaröryggi“ er notað í athugasemdum og greinargerðum við lagafrumvörp. Sömu sögu er raunar að segja um þær dönsku og íslensku kennslubækur, sem notaðar hafa verið til kennslu í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, en í þeim er hugtakið ekki skilgreint sérstaklega.“

Virðulegi forseti. Ég held að þessi texti sem ég var að lesa hér upp sýni bara enn betur mikilvægi þess að taka skýrt fram, þegar kemur að umfangsmiklu frumvarpi sem varðar beint réttindi borgara, hvað réttaröryggi þýðir. Þetta frumvarp allt varðar réttaröryggi. Páll Hreinsson segir, með leyfi forseta: „Eins og áður er réttaröryggi borgaranna í skiptum við stjórnvöld meginmarkmið stjórnsýslulaga.“

Réttaröryggi borgaranna. Að viðhalda réttaröryggi borgara í samskiptum við stjórnvöld er ein af meginreglum stjórnsýslulaga. Ókei. Útlendingastofnun er stjórnvald. Einstaklingur er kannski ekki beint ríkisborgari en hann er samt borgari, kemur hingað og þarf að eiga samskipti við Útlendingastofnun og Útlendingastofnun hefur einhverjar víðtækar heimildir til að beita einhverjum aðferðum sem verða lögfestar með þessum lögum. Þar af leiðandi er búið að brjóta það hugtak sem er notað yfir réttaröryggi, sem er vaninn að nota yfir réttaröryggi í samskiptum við þetta stjórnvald. Því finnst mér rosalega mikilvægt að bera virðingu fyrir málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og stjórnvalda því að þau kveða skýrt á um hvernig stjórnvöld eiga að sjá um úrlausn mála hjá einstaklingum sem þau þurfa að skera úr um.

Þetta frumvarp veldur mér verulegum áhyggjum af því að mér sýnist það vera að búa til sínar eigin málsmeðferðarreglur með því t.d. að setja einhverjar sérreglur um endurteknar umsóknir og taka ekki mál til efnismeðferðar ef einhver ákveðin skilyrði eru ekki til staðar eða hitt eða þetta. Ef þetta kallast ekki að búa til sínar eigin málsmeðferðarreglur þegar kemur að afgreiðslu umsókna umsækjenda um alþjóðlega vernd þá veit ég ekki hvað þetta er.

Virðulegur forseti. Ég segi: Í alvöru talað, þetta er hættuleg þróun sem er að eiga sér stað með þessu lagafrumvarpi ef það verður samþykkt. Mér líst ekkert á blikuna, að það verði settar sérmálsmeðferðarreglur þegar kemur að því að skera úr um réttindi eða skyldur borgara eða einstaklinga sem leita til stjórnvalds og þurfa samþykki frá stjórnvaldi til að fá eitthvað jafn dýrmætt og dvalarleyfi. Þannig að ég legg til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta til skoðunar og komi í veg fyrir að svona hættuleg þróun eigi sér stað í réttarkerfinu okkar og af hálfu þessa löggjafarþings og þessa löggjafarvalds. Að við varðveitum það réttarríki sem við höfum reynt að byggja upp og varðveita í svo ótrúlega langan tíma.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum en ég er ekki alveg búin að tala um málsmeðferðarreglur stjórnvalda og hvernig þetta frumvarp stríðir gegn þeim meginreglum þannig að þú mátt endilega setja mig aftur á mælendaskrá.