Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Nú held ég að það fari að líða að lokum þessarar yfirferðar minnar um ríkisfangslausu börnin sem stjórnarmeirihlutinn vill fara að búa til með því að fjölga í hópi þess fólks sem er í umborinni dvöl, sem er búið að fá endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en er af ýmsum ástæðum ekki hægt að koma til heimalands síns. Foreldra þessara barna á reyndar að fara að svelta til hlýðni með því að svipta þau þjónustu og hefur verið bent á það í skýrslu Rauða krossins um stöðu þessa hóps að það væri kannski hægasti leikur að búa til kerfi þar sem þau geta sótt um bráðabirgða dvalar- eða atvinnuleyfi til að geta séð sér farborða meðan þau eru í þessu limbóástandi hér á landi. En þetta brot á mannréttindum barna þeirra, að þau fæðist ríkisfangslaus, setur náttúrlega ágætlega í samhengi þá fullyrðingu hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar sem féll í kvöldfréttatíma Stöðvar 2, hvort það var í gær, þar sem hún sagði að í þessu frumvarpi væri ekki verið að brjóta nein mannréttindi, sem er fullyrðing sem ekki er hægt að styðja með því að farið hafi fram úttekt, hvað þá óháð úttekt á samspili ákvæðanna við skuldbindingar í mannréttindum. En svo eru náttúrlega dæmi sem við getum tekið úr frumvarpinu sem sýna það svart á hvítu. Og það að þetta frumvarp muni fjölga börnum án ríkisfangs brýtur nokkra ólíka mannréttindasáttmála.

Ég talaði hér áðan um þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað varðandi Ísland og þessa alþjóðasamninga um ríkisfangsleysi. Sú þróun á sér ekki stað í neinu tómarúmi heldur er þetta hluti af átaki Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hefur það hlutverk að útrýma ríkisfangsleysi á heimsvísu, átaki sem fór af stað árið 2014 og stendur til 2024. Það hefur greinilega borið ágætan árangur í tilviki Íslands af því að 2017 og 2018 fóru að berast fyrstu lagabreytingarnar í þá átt að Ísland gæti gerst aðili að þeim tveimur samningum sem um er að ræða á einum 60 árum — það var í hittiðfyrra sem annar samningurinn var gerður, samningurinn um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961, og hinn er frá 1954, um stöðu fólks án ríkisfangs, þannig að það voru akkúrat 60 ár annars vegar og rúm 60 ár hins vegar sem liðu frá því að samningar voru gerðir og þar til Ísland var komið með þá lagaumgjörð sem gerði stjórnvöldum kleift að gerast aðili að samningnum.

Þá skýtur auðvitað mjög skökku við að ætla að stíga skref aftur á bak og fara að gera lagaumgjörðina verri. Þess vegna held ég að væri ekki úr vegi fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að hún, eftir að hafa hunsað þessa skýrslu Rauða krossins um stöðu fólks í umborinni dvöl, sæi að sér og ákvæði að bæta úr því sem bæta þarf. Það væri ekki úr vegi að fá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til að skoða þetta atriði sérstaklega því að mér sýnist að í ítarlegri umsögn stofnunarinnar hafi ekki verið vikið sérstaklega að þessu, enda af svo ótal mörgu að taka í frumvarpinu að þau hafa kannski sett fókusinn meira á stóru atriðin og hér er kannski, ég ætla ekki segja jaðaratriði en einhver óvænt víxlverkun þessara lagabreytinga við aðra hluta lagaumhverfisins. (Forseti hringir.) Þannig að ég vona að nefndin nái aðeins að taka betur utan um þessi ríkisfangslausu börn (Forseti hringir.)sem getur ekki verið vilji nokkurs okkar fjölga.