Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni varðandi það að þegar málið fer aftur til allsherjar- og menntamálanefndar á milli 2.og 3. umr. þá verði vonandi eitthvað inni í því, þó að ég hafi litla trú á því, og þá væri sömuleiðis ánægjulegt að fá álit Flóttamannastofnunar á tilteknum atriðum sem ekki hafa verið tekin til umfjöllunar af hálfu stofnunarinnar. Það er kannski einskis annars að vænta en að þær athugasemdir Flóttamannastofnunar verði afgreiddar með sama hætti og aðrar athugasemdir stofnunarinnar við þetta frumvarp, sem er sem sagt að virða þær með öllu að vettugi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kom með mjög skýra umsögn og mjög hógværa; gerði tilteknar athugasemdir við tilteknar greinar og kom með mjög skýrar tillögur. En meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar sá ekki nokkra ástæðu til að bregðast við þeim tillögum, enda var nefndarálit meiri hlutans tilbúið þegar álit Flóttamannastofnunar barst og búið að afgreiða málið úr nefnd þegar þýðing á umsögn Flóttamannastofnunar barst á íslensku.

Við erum hér að ræða svolítið 6. gr. frumvarpsins varðandi þjónustustýringu og ég ætla aðeins að fá að fara yfir umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr umsögninni, með leyfi forseta:

„Umsögn Rauða krossins er mótuð af mikilli og langri reynslu sem félagið hefur af málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna. Við yfirferð frumvarpsins hefur Rauði krossinn haft til hliðsjónar grundvallarhugsjónir hreyfingarinnar um mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi sem og stefnu Alþjóðahreyfingar Rauða krossins í málefnum sem tengjast flóttafólki, umsækjendum um alþjóðlega vernd og alþjóðlegum fólksflutningum. Ábendingar og athugasemdir félagsins miða að úrbótum, þar sem hagsmunir stjórnvalda og þeirra einstaklinga sem í hlut eiga fara alla jafnan saman.“

Ég geri hér hlé á tilvitnun. Það sem er verið að segja þarna er að Rauði krossinn geri athugasemdir sem hann telur að skemmi ekki fyrir þeim markmiðum sem stjórnvöld segjast vera að stefna að með frumvarpinu.

Ég ætla aðeins að grípa aftur niður í umsögninni, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn telur miður að frumvarpið taki ekki á þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir varðandi þá umsækjendur sem hér sitja fastir og réttindalausir og ekki er hægt að flytja úr landi. Dæmi um slíka umsækjendur eru umsækjendur frá Írak sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en íröksk stjórnvöld samþykkja ekki endurviðtöku á. Að mati Rauða krossins vantar inn í frumvarpið ákvæði sem tekur á vanda þessa hóps en einungis er þar að finna tillögu sem þröngvar þeim á götuna í þeirri von að þeir fari sjálfviljugir úr landi, sbr. 6. gr. frumvarpsins um þjónustusviptingu. Hinn 3. nóvember sl. sendi Rauði krossinn dómsmálaráðuneytinu ítarlega umfjöllun unna upp úr skýrslu félagsins um aðstæður umsækjenda í framangreindri stöðu hér á landi.“

Þetta er upp úr almennum athugasemdum í umsögn Rauða krossins, sem er nokkuð ítarleg, en það er líka sérstök umfjöllun um 6. gr. frumvarpsins. Ég árétta það sem kom fram hérna áðan, það er enginn aðili á Íslandi sem hefur jafn umfangsmikla og langa reynslu af meðferð flóttamannamála og aðstoð við flóttafólk og Rauði krossinn á Íslandi. Rauði krossinn vinnur alls staðar í heiminum í ákveðnu samstarfi við stjórnvöld og er almennt ekki talin róttæk hreyfing heldur mjög hógvær í sínum kröfum um grundvallarréttindi og slíkt.

Í umsögninni segir, ég ætla bara að byrja á þessu og held svo bara áfram í næstu ræðu, með leyfi forseta:

„Hér er lögð til sú grundvallarbreyting á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að réttur til þjónustu verður felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli þeirra. Hingað til hafa umsækjendur notið þjónustu þar til þeir yfirgefa landið ef frá eru taldir umsækjendur frá EES-ríkjum en þeir hafa ríkan rétt til að setjast hér að og litið hefur verið svo á að þeir eigi að geta nýtt sér slíkar heimildir.“

Ég geri hlé á tilvitnuninni hér og óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.