Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig en ég hef svo sem fengið það staðfest frá þeim sem eru þó að hlusta, sem því miður virðast ekki vera þingmenn meiri hlutans, en það eru ýmsir að hlusta þarna úti og horfa, að það sem ég hef verið að segja hérna uppi í pontu sé raunverulega fróðlegt og hjálpi fólki að skilja út á hvað þetta frumvarp gengur. Það er nefnilega ekkert óheiðarlegt sem ég sagði hér í upphafi þessarar umræðu. Mitt helsta markmið í þessari 2. umr. um þetta mál er að gera fólki ljóst hvað er verið að samþykkja hérna vegna þess að ég trúi því í alvörunni að fólk geri sér ekki fulla grein fyrir því og ég fæ alltaf fleiri og fleiri staðfestingar á því að sú tilfinning mín sé rétt. Hins vegar er ljóst að þetta mál er ekki tilbúið. Það er ljóst að það á að gera einhverjar breytingar á því en við vitum ekki hverjar þær eru. Þannig að kannski eru allar þessar skýringar óþarfi, kannski er þetta allt bara til einskis. Því beini ég því til virðulegs forseta, sem hefur vald til þess að beina málinu (Forseti hringir.) aftur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, að gera það þar sem komið hefur fram að það er þörf á því að nefndin taki málið til frekari umfjöllunar áður en við klárum það hér í þessum þingsal.