Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langaði að fá að vitna aðeins í ræðu fyrrverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, sem hann hélt 1. október 2007 við setningu þingsins. Þá lagði hann fram hinar ýmsu breytingar á starfi þingsins og sagði, með leyfi forseta:

„Til grundvallar þessum breytingum á umræðuformi liggur líka það sjónarmið að nú á tímum eru gerðar miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um margvíslega þátttöku í stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins.“

Síðar í ávarpinu segir hann:

„Næturfundir ættu auðvitað ekki að þekkjast. Þingmenn og starfsfólk Alþingis eiga eins og annað fólk að geta sinnt eðlilegu fjölskyldulífi.“

Virðulegi forseti. Næturfundir ættu ekki að þekkjast. Það er alger óþarfi að halda starfsfólki og þingmönnum í gíslingu. (Forseti hringir.) Mig langaði bara að minnast þessara orða.