Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í síðustu ræðu fór ég aðeins yfir þær breytingar sem urðu á lögum um útlendinga með samþykkt laga nr. 17/2017. Þar er annars vegar um að ræða leiðréttingu á atriði sem varð til þess að þrengja rétt fólks til dvalarleyfis, sem var alveg sjálfsagt að leiðrétta, en hins vegar var verið að festa í sessi það sem hafði komið inn sem bráðabirgðaákvæði nokkrum vikum áður um að kæra og brottvísun útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd fresti ekki réttaráhrifum hafi Útlendingastofnun metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og einstaklingurinn kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki.

Þessum hluta frumvarpsins lögðumst við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar gegn, Píratar, Samfylking og Vinstri græn. Rökin sem komu fram gegn þessari breytingu birtist í nokkrum umsögnum. Við vísuðum í nefndaráliti sérstaklega til skilmerkilegrar umsagnar Rauða krossins á Íslandi sem stóð þarna sem endranær vaktina í þágu fólks á flótta til þess að ekki sé gengið á mannréttindi fólks að tilefnislausu. En umsagnirnar komu líka frá aðilum sem eru kannski ekki alltaf á sömu síðu. Lögmannafélag Íslands og samtökin No Borders voru t.d. bæði með umsögn þar sem lagst var gegn þessari breytingu. Það er nú ekki alltaf sem þeir tveir hópar ná saman. En þarna komu fram mjög skýrar athugasemdir sem við í minni hlutanum töldum að taka bæri fullt tillit til. Vandinn við þetta ákvæði, eins og við höfum fengið að sjá í þeirri framkvæmd sem hefur átt sér stað á þeim árum sem liðin eru síðan þá, er að það er svo ofboðslega mikilvægt að ákvarðanir stjórnvalds á borð við Útlendingastofnun séu kæranlegar, raunverulega kæranlegar þannig að Útlendingastofnun eða, ef við erum að tala almennt, slíkur aðili öðlist ekki einhvers konar alvald í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd vegna þess að það opnar á möguleikann á að fólk sem sótt hefur um vernd hér á landi yrði sent úr landi í kringumstæður sem væru bara hreinlega háskalegar og voru jafnvel ástæða flótta þess til landsins. Þannig að með því að réttaráhrifum brottvísana sé ekki frestað með því að fólk leiti niðurstöðu til æðra stjórnvalds hér á landi eru þeir alla vega að skerða eða hreinlega fella niður möguleika fólks til að fá endanlega úrlausn mála sinna. Það er síðan aftur ávísun á ótæka málsmeðferð. Við höfum séð það hvernig þróunin hefur verið hjá Útlendingastofnun í framhaldinu. Ég held að þetta sé hluti af ástæðunni fyrir því hvers vegna framkvæmdin hjá Útlendingastofnun virðist einhvern veginn alltaf ná að verða verri gagnvart ákveðnum hópum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Það sem við lögðum til í þessum minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar á sínum tíma var ósköp einfaldlega að ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið komi ekki til framkvæmda fyrr en hún er endanleg á stjórnsýslustigi, nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi. Þannig myndum við að knýja íslenska ríkið til þess að líka vanda sig betur. Ef fólk fær endanlega niðurstöðu, sem fjarvera þess frá landinu kemur oft í veg fyrir, þá verður framkvæmdin betri vegna þess að þá liggja allt í einu fyrir dómar og úrskurðir sem fara að byggja upp fordæmi sem kerfið þarf að fylgja.