147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Dagskrártillagan sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir að nýtt mál verði tekið á dagskrá og það væntanlega afgreitt fyrir þingfrestun. Staðan er auðvitað sú, praktískt séð, að það er skammt til kosninga. Það er samkomulag um að ljúka þingstörfum og þegar nýju máli er hent inn með þessum hætti veldur það því að öll slík áform fara í vaskinn. Þetta er mál sem er þess eðlis að ef það kæmi á dagskrá þingsins þyrfti það yfirlegu, umræðu og athugun.

Mál Pírata gerir ráð fyrir að hægt verði að afgreiða stjórnarskrárbreytingar með þjóðaratkvæðagreiðslu án nokkurra þröskulda, hvorki þröskulda í þingi né í þjóðaratkvæðagreiðslu. Efnislega er málið þannig líka algerlega óásættanlegt af minni hálfu. Í raun og veru tel ég að það væri alveg fráleitt ef við færum út í breytingu, jafnvel þótt það sé bara á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, án nokkurrar umræðu, án nokkurrar athugunar, án þess að menn sjái fyrir endann á því, (Gripið fram í.) sama dag og ætlunin er að ljúka þingstörfum.