150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það veldur vonbrigðum að verið sé að seinka lækkun á bankaskatti eins og hér er fært fram. Ég er í hópi þeirra sem hafa orðið verulegar áhyggjur af samkeppnishæfni bankakerfisins hér á landi. Við búum við umhverfi þar sem grunnvextirnir sem bankakerfið okkar hvílir á eru 3–4% hærri en í nágrannalöndum okkar, hið minnsta. Eins og kemur ágætlega fram í hvítbókinni er vaxtamunur bankanna u.þ.b. 2% hærri, því til viðbótar, en það sem gengur og gerist eða best gerist í sambærilegum bönkum af sambærilegri stærð á hinum Norðurlöndunum. Þá er ég að horfa til norrænna banka með hvað lægstan vaxtamun en þó af sambærilegri stærð hvað varðar efnahag. Það sem maður veltir auðvitað fyrir sér er að bankaskatturinn er bara skýrt dæmi um beina skattlagningu á viðskiptavini bankanna, okkur sjálf, og þar af leiðandi mætti kalla það ígildi skattahækkunar að fresta áformum um lækkun hans enn frekar. En mun meira áhyggjuefni, fram á veginn litið, er minnkandi arðsemi bankanna, minnkandi samkeppnishæfni þeirra. Í raun er stöðugt verið að ganga á samkeppnismöguleika þeirra, getum við sagt, vegna hás kostnaðarstigs og opinberra álaga eins og þessa bankaskatts en ekki síður þeirra eiginfjárkrafna sem gerðar eru til bankanna. Ég velti því fyrir mér: Hvað hyggst ráðherra fyrir varðandi þetta? Við þetta ástand verður varla mikið lengur unað. Við sjáum að það er að molna undan arðsemi bankakerfisins, það á stöðugt erfiðara uppdráttar. Við sjáum að húsnæðislán færast meira og meira yfir til lífeyrissjóða, bankakerfið er engan veginn samkeppnishæft um erlendar lánveitingar til stærri íslenskra fyrirtækja. (Forseti hringir.) Hvar endar þetta?