150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

neytendalán og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

582. mál
[16:18]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu mjög en mér þótti rétt og raunar mér skylt að taka aðeins til máls í umræðu um það frumvarp sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur sameinast um. Ég vil segja að þegar kemur að neytendalánum, og þá er ég kannski fyrst og fremst að horfa í svokölluð smálán, þá hefur verið mikil eindrægni innan nefndarinnar að koma upp þeim vörnum sem nauðsynlegar eru til að verja þá sem standa höllum fæti af ýmsum ástæðum, félagslega og fjárhagslega, gagnvart óeðlilegri, óheilbrigðri og á stundum ósiðlegri lánastarfsemi. Svo að það sé sagt líka er kannski ekki um marga aðila að ræða, kannski einn sem starfar stundum undir fleiri en einum hatti. Það gleðilega hefur nefnilega verið að gerast hér á Íslandi á undanförnum árum að komið hafa til sögunnar sprotafyrirtæki, fjártæknifyrirtæki sem eru að bjóða íslenskum neytendum nýjar lausnir, nýjar aðferðir við að veita neytendalán. Þau stunda sín viðskipti samkvæmt lögum, samkvæmt reglum og góðum siðareglum. Það er mikilvægt, eins og hv. framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, sagði áðan, að við ýtum frekar undir nýsköpun og reynum að greiða leið þeirra vegna þess að það er auðvitað hagur neytenda að fá nýjar lausnir inn á markaðinn en ekki síst að það séu fleiri aðilar á lánamarkaði og aukin samkeppni.

Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, held ég að mér sé óhætt að fullyrða, erum hins vegar öll alveg meðvituð um að verkefni okkar er ekki lokið. Það á ýmislegt eftir að gera. Það þarf að endurskoða lög er varða löginnheimtu. Það kann að vera að það séu líka gloppur í innheimtulögum o.s.frv., þannig að þetta verk er ekki að hlaupa frá okkur. Við munum alveg örugglega þurfa að glíma við ýmislegt á þessu sviði á komandi mánuðum og misserum. Ég vona að það verði ekki mælt í lengri tíma en það.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að áherslan í gildandi neytendalögum hefur verið sú að horfa til árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og reyna að tryggja að hún fari ekki úr böndunum, að setja á hana þak. Við sameinuðumst um það hér fyrir áramót að lækka þessa árlegu hlutfallstölu kostnaðar úr 50% í 35%. Það var gert í þeirri trú að með þeim hætti, a.m.k. að hluta til, gætum við slegið aðeins styrkari skjaldborg um þá sem eru á þessum svokallaða smálánamarkaði, þ.e. lántakendur. Árleg hlutfallstala kostnaðar er auðvitað mikilvæg. Hún er mikilvæg fyrir alla þá sem taka lán, annars vegar til að átta sig á raunverulegum kostnaði við lánið en líka til að bera saman ólík lánaform. Það er ekki bara verið að horfa til þess hvaða vextir eru á viðkomandi láni heldur verið að taka til greina og taka inn í jöfnuna alla kostnaðarliði. Árleg hlutfallstala kostnaðar mælir þannig heildarkostnað við að taka lán, þ.e. vexti og annan kostnað, lántökukostnað, stimpilgjöld, innheimtugjöld, greiðsluseðla o.s.frv. Þetta er reiknað yfir í prósentutölu og tilgangurinn er að neytandi geri sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er raunverulega og líka að hann eigi auðveldara með að bera saman þá kosti sem hugsanlega kunna að vera í boði.

Vandinn við að horfa með jafn stífum hætti og við höfum gert á árlega hlutfallstölu kostnaðar er sá að hér er ekki um „konstant“ að ræða, þ.e. árleg hlutfallstala kostnaðar tekur breytingum eftir lengd láns, þ.e. eftir því sem lánið er til lengri tíma því lægri er hlutfallstalan. Það sama á við þegar kemur að lánsfjárhæð. Eftir því sem fjárhæðin er hærri lækkar árleg hlutfallstala kostnaðar. Fleiri gjalddagar hækka hins vegar árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þetta þýðir í raun að það er einhvers konar innbyggður hvati fyrir fólk sem þarf af einhverjum ástæðum á tímabundnu skammtímaláni að halda að taka fremur aðeins hærra lán til að lækka árlega hlutfallstölu kostnaðar og taka það til lengri tíma en nauðsynlegt er. Þegar upp er staðið verður lánið dýrara en hlutfallstala kostnaðar verður lægri.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, fyrir þingið, fyrir ráðherra neytendamála og fyrir aðra hagsmunaaðila eins og Neytendasamtökin, sem hafa veitt okkur ráð og góða liðveislu í öllu okkar starfi, að huga að því hvort það séu hugsanlega aðrar leiðir en að binda og setja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar sem skili meiri árangri og skipti neytendur meira máli af því að meiri vörn sé í slíku falin. Þá hef ég t.d. horft mjög á það hvernig Finnar hafa staðið að verki. Þeir hafa tekið þá ákvörðun að setja þak á prósentu vaxta þ.e. vextir mega ekki fara upp fyrir eitthvað ákveðið og ég hygg að ég fari rétt með að það sé 20% en síðan megi reikna kostnað af láni sem nemur 0,01% á hverjum degi lánsins eða svo, en þó aldrei hærri fjárhæð en 150 evrur, ef ég man rétt.

Nú eru þetta tölur sem kannski er ekki hægt að heimfæra yfir á Ísland af ýmsum ástæðum, hér er annað vaxtaumhverfi, annar kostnaðarstrúktúr o.s.frv. En aðferðafræðin kann hins vegar að vera miklu skynsamlegri en að horfa til árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. að segja að við séum fremur að horfa til þess að setja þak á leyfilega vexti og síðan hversu háan kostnað megi hlutfallslega reikna á lánið en þar verði einnig þak sem væri í okkar tilfelli krónutala. Það væri t.d. 0,01% eða 0,001% á hverjum degi sem kostnaðurinn gæti verið en síðan aldrei hærri en einhver ákveðin krónutala. Mér sýnist að þetta gæti náð betur utan um það verkefni sem við stöndum frammi fyrir, a.m.k. væri það óskynsamlegt fyrir okkur hér í þingsal, og ég tala nú ekki um hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að huga ekki sérstaklega að þessu. En það verður auðvitað ekki gert á næstu vikum eða næstu mánuðum. Það verður ekki gert öðruvísi en í samstarfi við hagsmunaaðila, við Neytendasamtökin, við fjártæknifyrirtækin, við stóru fjármálafyrirtækin og síðan ráðuneyti neytendamála.

Hæstv. forseti. Ég vildi bara vekja athygli á þessu. Þetta er einhvers konar hugleiðing mín. Eftir því sem ég hef farið meira og betur í gegnum þetta þá hallast ég að finnsku leiðinni, ég þori varla að segja það fyrst hæstv. forseti situr nú í stólnum vegna þess að það eru alltaf einhverjar sænskar og finnskar, svissneskar og skoskar leiðir. Eftir mínum upplýsingum hafa nær allir stjórnmálaflokkar í Danmörku skrifað undir samkomulag um að beita sér gegn starfsemi hinna agressífu smálánafyrirtækja sem virðast fremur herja á þá sem veikast standa og verður frumvarp kynnt á danska þinginu nú á vormánuðum og það er rétt fyrir okkur að fylgjast með því. Eftir því sem ég fæ best séð eru þeir að fara svipaða leið og Finnar. Við ættum að horfa til þess hvað þessar tvær frændþjóðir okkar eru að gera í þessum efnum.