154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

barnaverndarlög.

629. mál
[14:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir þetta góða mál. Mér finnst í rauninni skorta á heildarstefnu og utanumhald utan um börn sem eru að koma hér í okkar ágæta skólakerfi, sem er í rauninni ekki svo ágætt þegar upp er staðið. Við erum að horfa upp á niðurstöður PISA-könnunar og annað slíkt og við vitum í rauninni og höfum ekki fengið að sjá hverju sætir. Við fáum ekki að sjá á milli skóla hvernig þeir hafa staðið sig í þessu og hvort það eru meiri líkur en minni að það sé vegna þess að við erum ekki að sinna börnum sem eru af erlendum uppruna og er að koma hér inn í skólakerfið. Ég er að velta fyrir mér hvað sé gert fyrir þessi börn til þess að efla þau andlega og efla þau inn í bekkina, inn í samfélagið, þannig að þau jaðarsetjist ekki. Hvað er gert fyrir þessi börn til þess að tryggja að þau fái í rauninni alla þá þjónustu í sambandi við að læra nýtt tungumál sem í rauninni farsæld þeirra og framtíð hér byggist algerlega á?

Ég verð að segja að þegar maður er að horfa heildstætt á hlutina þá er ég búin að sjá það í gegnum tíðina, bæði af viðtölum við foreldra þessara barna, við börnin sjálf og inni í skólakerfinu, að það er mjög mikill misbrestur á því að börnin fái þá raunverulega þann stuðning og þá þjónustu. Auðvitað er vel að það skuli vera að koma inn frumvarp sem á að einhverju leyti að byggja betur og hlúa betur að þessum börnum en, hæstv. ráðherra, er ekki orðið tímabært að við tökum málin föstum tökum og látum ekki þessa einstaklinga, börnin okkar, ganga í gegnum allt menntakerfið án þess að fá þá nauðsynlegu hjálp og þann stuðning sem þau þurfa á að halda til þess að geta látið sér líða vel í samfélaginu okkar, til þess að koma í veg fyrir alls konar einelti og alls konar vanlíðan sem skapar ekkert annað en beiskju og reiði út í samfélagið sem á að vera framtíð þeirra?