133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda.

48. mál
[17:21]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem nú er til umræðu, tillaga til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda, er eitt af þeim málum sem Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á á þinginu. Þetta var eitt af fyrstu málum sem við lögðum fram og sem sett var á forgangslista hjá Samfylkingunni og meginþungi var lagður á að hlyti góða umfjöllun á þingi og mundi ná fram að ganga.

Í forustu fyrir málinu er hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sem mælt hefur fyrir tillögunni. Mér er það til efs, virðulegi forseti, að nokkur þingmaður í þessum þingsal hafi meiri þekkingu á þeim málaflokki en hv. þingmaður, enda hefur hún unnið mikið að þessum málum áður en hún settist á þing. Þess vegna er mikill fengur fyrir þingið á meðan verið er að vinna málið, að Guðrún Ögmundsdóttir haldi utan um það í þinginu.

Nú er okkur svolítill vandi á höndum, virðulegi forseti, vegna þess að við höfum farið þá eðlilegu og sjálfsögðu leið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda, sem er auðvitað sjálfsagður og eðlilegur vettvangur, að þingið fjalli um slík mál. Reyndar er það svo að Samfylkingin hefur látið sig svipuð mál varða áður og fyrir nokkrum árum, sjö, átta árum eða svo, var þingmál flutt um málefni innflytjenda sem átti einmitt að tryggja réttarstöðu þeirra.

Þingmálið liggur sem sagt fyrir og fer í þinglega meðferð en miðað við þá umræðu sem var í morgun stefnir margt í það að ríkisstjórnin eigi að hafa stefnumótun sína í málefnum innflytjenda án þess að þingið fái að koma nálægt. Það sjá auðvitað allir hvílík vitleysa það er að málið sé í þeim farvegi.

Virðulegi forseti. Ég verð að treysta því og óska atbeina forseta í því að ráðherrarnir sjái nú að sér og fari með málið í þann eðlilega farveg að það komi fyrir þingið, þ.e. sú stefnumótun sem kynnt var félagsmálanefnd í gær, og þingið fái að fjalla um málið og við fáum að greiða um það atkvæði.

Í þeirri tillögu sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hefur mælt fyrir er einmitt að finna ýmis atriði og ýmsar áherslur sem hafa verið settar fram sem munu gagnast mjög vel við að útfæra heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sem allt þingið stæði að. Og framkvæmdarvaldið hefði allt þingið á bak við sig í slíkri stefnumótun. Það er heilmikið í stefnumótuninni sem mundi gagnast í sameiginlegri vinnslu í málinu og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í þessu sama máli sem við höfum kallað eftir á þessum morgni, að yrði lögð hér fram til þinglegrar meðferðar og umfjöllunar.

Það er svo, virðulegi forseti, að fjöldi fólks í þjóðfélaginu hefur miklar skoðanir á málinu. Eðlilega á að senda það til umsagnar og leyfa fólki að hafa áhrif á ferli málsins og stefnumótun, margir sem þekkja mjög vel til. Ekki síst þurfa sveitarstjórnirnar, ekki bara Samband íslenskra sveitarfélaga, heldur stærstu sveitarstjórnir að koma að því. Þess vegna verð ég að trúa því og treysta að slík verði meðhöndlun Alþingis á málinu.

Ég vil rifja það upp að þegar við afgreiddum frumvarpið um frjálsan atvinnu- og búseturétt á síðasta vori var lögð áhersla á að við fengjum slíka stefnumótun þegar á haustþingi og hún yrði kynnt Alþingi og framkvæmdaáætlun gerð á grundvelli þeirrar stefnu.

Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að þessu fylgi tímasett aðgerðaáætlun, hvernig við ætlum að fylgja þessu í framkvæmd og hvernig á að fjármagna þá aðgerðaráætlun. Það er óþolandi í svona stóru máli sem skiptir verulegu máli og hefur þýðingu fyrir allt samfélagið og þá sem hingað vilja flytjast, ef þetta á bara að vera pappírsplagg í skúffum ráðherranna og brotalöm verði á allri framkvæmdinni.

Við þetta var ekki staðið. Ég vil líka árétta að á vorþinginu í fyrra lögðum við áherslu á það í tengslum við löggjöfina um frjálsa för og atvinnu- og búseturétt launafólks, að skila átti áliti og tillögum fyrir 1. nóvember og koma með tillögur um hvernig unnt yrði að tryggja útlendinga sem dvelja hér og starfa með lögmætum hætti, að áreiðanlegar upplýsingar verði til um þá útlendinga sem hér starfa og m.a. væri skoðað hvort ástæða væri til að styrkja vinnumarkaðskerfið sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er grundvallaratriði.

Virðulegi forseti. Ekki er ýkjalangt síðan að útlendingar fóru að koma hingað í svo miklum mæli eins og raun ber vitni. Við eigum því að nýta okkur þá reynslu sem aðrar þjóðir hafa haft þegar útlendingar hafa flutt til þeirra landa, vegna þess að ýmis vandamál hafa komið upp milli ólíkra þjóðfélagshópa sem ástæða er til að við nýtum okkur við þá stefnumótun sem hér er verið að vinna og þá löggjöf sem þarf að setja í tengslum við þetta mál, sem er margþætt.

Ég vil, virðulegi forseti, leggja áherslu á það lykilatriði sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. blöndun og samþættingu að því er varðar innflytjendur og Íslendinga, vegna þess að við megum ekki halda þannig á málum að innflytjendur einangrist frá okkur heldur verður að vera blöndun í skólakerfinu, í búsetu- og húsnæðisaðstöðu, á vinnumarkaði og í frístundum. Það á að gegna lykilatriði í allri stefnumótun og framkvæmd.

Ég held, virðulegi forseti, að mjög mikið af tölfræðilegum upplýsingum vanti sem nauðsynlegar eru þegar slík stefna er mótuð eins og hér er verið að gera. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um t.d. þá 16.000 útlendinga sem hér vinna og starfa til skemmri eða lengri tíma. Ég bíð spennt eftir því að vita hvort hægt sé að svara þeirri fyrirspurn, sem væri nauðsynlegt innlegg í þá stefnumótun sem þarf að fara fram og til hagræðis fyrir félagsmálanefnd sem fær þessa heildarstefnumótun og tillöguna til umfjöllunar.

Tími minn er að verða búinn. Ég harma að ekki skuli vera fleiri í þingsalnum að ræða þetta mikilvæga og stóra mál. Hér vantar t.d. heilan þingflokk sem mikið hefur látið sig þessi mál varða. Ég hafði vonast til að við gætum átt skoðanaskipti um málið. En ég vona þá, virðulegi forseti, að málið komi inn til þingsins aftur þannig að við getum fjallað um það eins og það á skilið. Og umfram allt, að ríkisstjórnin og ráðherrarnir sjái að sér og komi með sína stefnumótun inn í þingið til þinglegrar meðferðar svo við getum rætt þessi mál samhliða.