152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að Viðreisn hefur stutt sölu ríkisins á hlutanum í Íslandsbanka. Það er okkar stefna að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri nema það að eiga kjölfestueign í einum banka. Það er stefna okkar í Viðreisn. Þess þá heldur skiptir máli hvernig við förum í söluna á Íslandsbanka og þeim fyrri hlut sem við höfum þegar selt. Við höfum stutt þetta ferli og það sem við höfum lagt áherslu á er að eignarhaldið verði dreift, það verði traustir eigendur og náttúrlega að gagnsæi ríki við alla gjörninga í tengslum við söluna. Eins og orðaskipti ráðherra áðan við hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur bera með sér þá er ákveðin tortryggni þegar kemur að smærri fjárfestum í þessu ferli. Ég vil túlka orð ráðherra þannig að það megi gera aðeins betur í þessu, að það megi gera allt til þess að upplýsa sem mest um gang mála og hverjir það voru á endanum sem keyptu. Ég held að það skipti máli líka upp á framhaldið af því að við viljum halda áfram og við í Viðreisn viljum gjarnan halda áfram að styðja ráðherra í að selja eignarhluti í bönkunum. En þá er algjört lykilatriði að það sé gert þannig að ekki bara við hér inni trúum og treystum heldur líka að almenningur treysti því að ferlið sé gott, gegnsætt og upplýsandi.

Nú eru ákveðnir fjármunir komnir í þetta og í samhengi við það að við erum komin með fjármálaáætlun þá er áhyggjuefni hvernig hún stendur, ekki síst hvað varðar skuldir ríkissjóðs. Mín spurning er þessi: Er það ekki alveg á hreinu að við munum nýta þessa fjármuni sem við fáum fyrir Íslandsbanka í það að greiða niður skuldir að meginhluta til og í markvissari og skýrari innviðafjárfestingu? Ótti minn og okkar í Viðreisn er að þetta fari í rekstur ríkisstofnana í stað þess að (Forseti hringir.) greiða niður skuldir og fara í tiltekna og afmarkaða innviðauppbyggingu.