152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:30]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá skýrslu sem hann gaf hér í upphafi þessarar umræðu og sömuleiðis taka undir að það er mikilvægt á þessum tímapunkti að við tökum fyrstu umferð í að ræða söluna og áhrif hennar og þeirri umræðu lýkur ekki hér í dag. Sú umræða mun standa áfram. Vegna orða hv. þingmanna, formanns fjárlaganefndar, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, og hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur í fjárlaganefnd, sem fram fór hér í andsvörum áðan vil ég öldungis taka undir þau orð sem þær báðar sögðu. Það liggur þá fyrir okkur þegar Bankasýslan kemur á fund fjárlaganefndar á morgun að ræða einmitt þau atriði sem hafa verið hér til umræðu um þessa minni fjárfesta sem þarna komu að og óska eftir skýringum á því. Ég held að ég geti sagt á þessu stigi máls, virðulegi forseti, án þess að hafa hlustað á skýringar Bankasýslunnar og heyrt fyrir því rök, að það sé sá punktur í mínum huga sem okkur ber að komast til botns í, án þess að fella um það sérstaka dóma á þessu stigi máls. Ég held að umræðan haldi áfram og uppgjör á þessari sölu og þessari söluaðferð eigi að sjálfsögðu eftir að eiga sér stað.

Áform um sölu á hlutum í Íslandsbanka hafa verið á dagskrá stjórnvalda allt frá árinu 2015. Ríkið eignaðist öll hlutabréf í bankanum sem hluta af stöðuleikaframlagi Glitnis við uppgjör þrotabúsins og var eigandi að tveimur af þeim þremur stóru viðskiptabönkum sem starfa á fjármálamarkaði hérlendis. Við styðjumst hins vegar við bankasöluna og meðferð eignarhluta í ríkisbönkum við lög nr. 155/2012 og við stofnsettum Bankasýsluna til að sjá um þessa hluti og koma þeim í þessa margumtöluðu armslengd frá pólitíkinni. Við verðum að muna það við þessa umræðu hér í dag að við höfum viðhaldið því fyrirkomulagi, við höfum gengið þá slóð sem mörkuð var með löggjöfinni frá 2012 og stuðst við hana og ég ætla að koma nánar að því síðar í minni ræðu, virðulegi forseti.

Sala á 35% hlut ríkisins síðastliðið sumar gekk vel. Eftirspurn reyndist miklu meiri en framboðið og samtals eignuðust um 24 þúsund hluthafar hluti í bankanum. Niðurstaða um verð sem nam 79 kr. á hvern hlut var mjög viðundandi, sérstaklega í ljósi óvissu í efnahagslífinu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í árslok 2021 hafði hluthöfum aftur á móti fækkað í 15.700. Ríkissjóður hélt þá, við upphaf þessa söluglugga núna, á 65% hlut í bankanum. Breskir og bandarískir sjóðir voru með samanlagt 5% af eignarhlutum og af innlendu hluthöfum eru lífeyrissjóðirnir stærstir. Hluthafahópurinn er fjölmennasti hluthafahópur skráðs félags og fullyrða má að markmiðið um fjölbreytt og dreift eignarhald hafi sannarlega náðst.

Markmið með sölu á hlutum í Íslandsbanka koma fram í greinargerð ráðherra til þingnefnda, þeirra sem um þetta hafa fjallað. Í greinargerð ráðherra kemur m.a. fram að helstu markmið með sölu á hlutum í bankanum séu sex; að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu og heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika innlendra einstaklinga og fjárfesta, að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslegra arðbærra fjárfestinga.

Virðulegur forseti. Ég vil einmitt varðandi þennan punkt staldra við þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra fór svo skýrt yfir í skýrslu sinni hér í upphafi. Við höfum selt hlut í þessum banka sem ríkið fékk í hendurnar fyrir 108 milljarða kr. Fyrir þessa 108 milljarða kr. hefur okkur tekist að minnka lánsfjárþörf ríkisins sem sparar okkur allt að 16 milljarða kr. á ári. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við setjum þessa staðreynd í beint samhengi við það þegar við ræðum um framtíðarvirði og framtíðararðtöku af þessum bönkum og horfum til þess að með þessari aðgerð höfum við einmitt byggt undir þá fjárfestingaráætlun sem við höfum haft og birtist m.a. í fjármálaáætlun sem nýlega barst til þingsins og á reyndar eftir að mæla fyrir.

Mikil óvissa var í efnahagslífinu þegar ákveðið var að selja 35% af hlutafé í bankanum. Nú hafa aðstæður batnað til muna. Mat á virði útlána viðskiptabankanna sýnir fram á þennan viðsnúning. Um helmingur af niðurfærslu útlána ársins 2020 hefur verið dreginn til baka í uppgjörum bankanna fyrir árið 2021. Þar með jókst arðsemi verulega milli ára og efnahagsreikningur Íslandsbanka, sem liggur til grundvallar sölu á bréfum ríkissjóðs, er mun sterkari en sá sem lá til grundvallar frumútboði. Ég held að þegar við ræðum um hagnað og arðsemi banka á síðasta ári sé mikilvægt að hafa þessa lykilstaðreynd í huga þar sem varúðarfærslurnar á árinu 2020 gengu að stórum hluta til baka, sem eitt og sér endurspeglar vel hversu traustum höndum aðgerðir hins opinbera til stuðnings við atvinnulífið í gegnum kórónuveirufaraldurinn skiluðu fyrirtækjunum og heimilunum síðan til lengri tíma þeirri stöðu að bankarnir drógu til baka niðurfærslu á útlánasöfnum. Verð hlutabréfa er töluvert hærra nú en var í frumútboði Íslandsbanka sem fram fór síðastliðið sumar. Þannig hefur heildarvísitala aðalmarkaðar hækkað um 17% frá lokum útboðsins og verð hlutabréfa Íslandsbanka er því nú rúmlega 30% hærra en í lok fyrsta viðskiptadags með bréfin 22. júní síðastliðinn. Verð hlutabréfa annarra banka hefur einnig hækkað á sama tíma.

Það var mat meiri hluta fjárlaganefndar í því bréfi sem áskilið er í slíku ferli að svara fjármálaráðherra þegar hann tilkynnir um væntanlegt söluferli að salan nú væri til þess fallin að hámarka söluandvirði á hlutum ríkissjóðs. Í stað framtíðararðgreiðslna, sem ávallt ríkir töluverð óvissa um, fæst eingreiðsla við sölu sem á að endurspegla núvirtar væntar framtíðargreiðslur úr rekstri bankans. Seinna segir í sama bréfi:

„Á síðastliðnum árum hafa átt sér stað miklar tækniframfarir innan fjármálageirans. Í því felast mikil tækifæri en einnig talsverð áhætta sem snýr að núverandi rekstrarmódeli viðskiptabanka. Í ljósi þeirra breytinga sem eiga sér stað í fjártækni er vandséð að ríkið sé heppilegasti eigandi að banka þar sem taka þarf skjótar og erfiðar ákvarðanir til að halda viðskiptaböndum samkeppnishæfum á komandi árum.“

Meiri hlutinn í fjárlaganefnd sagði einnig í sinni umsögn um söluferlið, og tók undir sjónarmið sem komu fram hjá umsagnaraðila sem kom fyrir nefndina, að það væri óheppilegt fyrir stjórnvöld að bera ábyrgð á því regluverki sem bankarnir starfa eftir og hafa eftirlit með þeim og að ríkið sé jafnframt eigandi að þeim fyrirtækjum sem regluverkið á við um. Þetta er atriði, virðulegi forseti, sem ég sakna svolítið úr umræðunni hér í dag, að menn hafa ekki munað eftir því og gefið betri gaum.

Markmiðið um að minnka skuldsetningu og auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga liggur fyrir. Nefndin kallaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem sérstaklega er fjallað um áhrif sölu Íslandsbanka á skuldir og vaxtabyrði ríkissjóðs. Það töldum við mjög mikilvægt því að hlutverk fjárlaganefndar í þessu ferli er fyrst og fremst að meta áhrifin á ríkissjóð til lengri tíma. Í því minnisblaði kom fram að stærsti óvissuþátturinn í því mati eru áhrif á vaxtakjör ríkissjóðs. Ef ekki kemur til frekari sölu ríkissjóðs í bankanum eru áhrifin þríþætt. Sem sagt: Ef við færum ekki í þessa sölu á hlutabréfum ríkisins, sem nú er um garð gengin, þá væri skuldabréfaútgáfa ríkisins hærri en ella vegna fjárþarfar. Á móti myndi vega að ríkið fengi áfram arðgreiðslur frá bankanum og það er ágætt að halda því til haga. Síðan megi gera ráð fyrir að aukin skuldabréfaútgáfa þrýsti ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa upp. Áfram segir í minnisblaði fjármálaráðherra til nefndarinnar:

„Í fjárlögum fyrir árið í ár, er gert ráð fyrir að útgáfa innlendra skuldabréfa nemi um 160 ma. kr. Ef hún hækkar í 235 ma. kr. gæti það haft þau áhrif að vaxtakjör ríkisins versni um 0,2 prósentustig á þessu og næsta ári þar sem aukið framboð ríkisbréfa leiðir til lakari vaxtakjara í útboðum ríkisins. Slíkt mat er reyndar háð mikilli óvissu. Hærri skuldir gætu síðan þrýst kröfunni upp um önnur 0,2 prósentustig á meðan skuldaaukningin varir. Það þýðir að hækkun skulda jafnvel þó svo að hækkunin sé lítil, hækkar yfir tíma einnig kostnað af öllum öðrum útistandandi skuldum.

Einnig hækka vaxtagjöld vegna hærri lántöku en á móti þeim vöxtum vega arðgreiðslur bankans. Nettóáhrifin miðað við þessar forsendur eru að vaxtagjöld aukast um samtals 32 ma. kr. á tímabilinu 2022–2026 og skuldir aukast um 152 ma. kr.

Þessu til viðbótar má benda á að ef áætlað söluvirði Íslandsbanka er ekki notað til að lækka skuldir þá hækka þær um 4% af vergri landsframleiðslu og verða þar með hærri en gert er ráð fyrir í nýsamþykktri fjármálastefnu.“

Meiri hluti nefndarinnar hefur á síðastliðnum árum bent á mikilvægi þess að viðhalda fjárfestingargetu hins opinbera til þess að stuðla að arðbærri fjárfestingu sem nýtist öllum landsmönnum til langs tíma. Ekki var kostur á því í kjölfar bankahrunsins árið 2008 og segja má að ríkissjóður sé enn að ná til lands í þeim efnum, þ.e. að taka utan um það viðhald sem dróst á þeim innviðum sem þá þurftu að gjalda fyrir viðhaldsleysi og auka fjárfestingar til að vega upp á móti niðurskurði á þessum sviðum á fyrstu árunum eftir bankahrunið. Sala á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka stuðlar að þessu markmiði. Þar með skapast aukið svigrúm til nauðsynlegra arðbærra fjárfestinga.

Virðulegur forseti. Þetta er í aðalatriðum það mat sem meiri hluti hv. fjárlaganefndar lagði til grundvallar á sínu áliti.

Ég vil að lokum rifja það upp að í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012, er býsna nákvæmlega kortlagt hvernig slík sala fer fram, þeim atriðum öllum var fullnægt í þessu ferli. Það er beinlínis talað um tilboðsleiðina sem farið var í, hún er tíunduð í greinargerð með frumvarpinu sem lögð var fram á þeim tíma þannig að umræða um að þetta sé á einhvern hátt óvæntur snúningur eða óvænt söluaðferð á einfaldlega ekki við.

Að öllu samanlögðu, virðulegi forseti, þá vil ég aðeins segja hér að lokum að ég held að þegar til lengdar lætur muni það skref að hafa selt þennan eignarhlut á þessum tíma skipta gríðarlega miklu máli fyrir framtíðarfjárþörf ríkissjóðs og getu hans til að standa undir því velferðarkerfi sem hann rekur og því heilbrigðiskerfi og því fjárfestingarstigi sem við viljum að sé mögulegt á hverjum tíma.