132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[12:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna menningarsamninga á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Svæðin á Suðurlandi og Vesturlandi hafa goldið fyrir úrelta skilgreiningu á stuðningi við slíka starfsemi. Fyrir tveimur árum kom upp mikil umræða um að fá hið opinbera til að koma að því að standsetja stóran, mikinn og glæsilegan menningarsal í Hótel Selfoss sem áratugum saman hefur staðið þar óinnréttaður, fyrst og fremst vegna þess að stjórnvöld draga lappirnar og neita að koma að því að gera salinn kláran. Þetta stendur öllu menningarstarfi á öllu Suðurlandsundirlendinu stórkostlega fyrir þrifum og þrátt fyrir ítrekaðar óskir Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og margra annarra þá hefur ekkert gerst í málinu og er alltaf vísað í úrelta og handónýta skilgreiningu á því hvaða svæði skulu vera innan þeirra marka að þau njóti stuðnings opinberra stjórnvalda vegna menningarstarfsemi.

Því vildi ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að hverfa frá þessari úreltu skilgreiningu og gera slíka samninga við þessi svæði sem önnur þannig að menningarstarfsemin megi blómstra og (Forseti hringir.) þessir salir rísa og verða innréttaðir eins og efni standa til.