146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

viðbótarkvóti á markað.

[13:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa spurningu, fyrir að draga það fram á þessum vettvangi að í þessari viku verður endanlega skipuð nefnd sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi munu eiga aðild að. Af hverju? Menn hugsa: Er þetta enn ein sáttanefndin? Það kann að vera að þetta sé enn ein sáttanefndin en þetta er nefnd sem hefur það gríðarlega mikilvæga hlutverk að reyna að sætta sjónarmið um þennan grundvallaratvinnuveg okkar Íslendinga, sjávarútveginn, sem enn er sú atvinnugrein sem skapar hvað mest verðmæti og er með mestu framleiðnina. Þetta er risavaxið verkefni. Ég hef trú á því. Mér heyrðist hv. þingmaður ekki vera mjög bjartsýn í þá veru að hægt verði að ná sáttum — en ef ég trúi því ekki, hver á þá að trúa því?

Í gegnum tíðina hafa þingmenn alls litrófsins, bæði frá vinstri og hægri, komið að því að byggja upp gríðarlega öflugan sjávarútveg. Við erum með öflugt og gott fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum stolt af. Við erum með framúrskarandi stjórn. Það er litið til okkar. Og allir þingflokkar, frá vinstri til hægri, hafa komið að því að byggja það upp. Erfið ákvörðun var tekin 1983 um að fara í kvótakerfið. Aftur var tekin erfið ákvörðun, undir forystu vinstri stjórnarinnar, um frjálst framsal veiðiheimilda. En það hefur skilað sér í því að við höfum náð mikilli hagræðingu, hagkvæmni og ekki síst sjálfbærni í uppbyggingu á fiskveiðistofnunum okkar. Allt hefur þetta mikla þýðingu í þá veru að við stöndum frammi fyrir því að hugsanlega og vonandi mun þorskstofninn halda áfram að vaxa. En ég vil minna hv. þingmenn á að það er ekki lengra síðan en árið 2007 sem þorskstofninn var ákveðinn 130.000 tonn þannig að það er ekki sjálfgefið að við byggjum hér upp öfluga stofna, fiskveiðistofn sem þorskstofninn er.

Hvað spurningu hv. þingmanns varðar er ýmislegt í henni sem hægt er að (Forseti hringir.) taka undir en ég vil benda á að meðan nefndin, sem hefur ekki mikinn tíma, hún hefur út þetta ár, er að störfum tel ég rétt að hún fái svigrúm til að meta hvaða leiðir eru bestar til að stuðla að sem víðtækastri sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar.