149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðakostnaður.

488. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég held að þetta sé nefnilega eitt stærsta atriðið sem við þurfum að skoða í húsnæðismálunum til að takast á við þennan húsnæðisvanda. Ég held að það hafi bæði áhrif á verð og framboð hvað stofnkostnaðurinn er gríðarlega mikill, lóðin og leigugjöldin í kringum þetta. Stjórnvöld hafa gert margt sem í þeirra valdi stendur með því að afnema stimpilgjöld af lánsskjölum og byggingarreglugerðin hefur verið rýmkuð með nýjum lausnum þannig að hægt sé að byggja fjölbreyttara húsnæði. Það er búið að reyna að liðka fyrir þessu öllu saman en á meðan réttu lóðirnar eru ekki í boði fyrir lágt verð verður mjög erfitt að auka framboð af íbúðum. Bankarnir græða mest á háum fjármagnskostnaði. Við sjáum í grunninn að það er stofnkostnaðurinn, lóðin og gjöldin, svo er byggingarkostnaðurin sjálfur og álagning byggingarfyrirtækjanna. Ef við fjölgum lóðum til einyrkjanna sem eru með minni álagningu en stóru byggingarfélögin eða auðveldum fólki að byggja sjálft sitt eigið húsnæði getum við haft alveg bein áhrif á bæði stofnkostnaðinn og endakostnaðinn sem er þá álagningin og fjármagnskostnaðurinn. Þarna held ég að sé eftir verulega miklu að slægjast og að þetta sé stóra verkefnið fram undan í húsnæðismálum til að bæta kjör almennings í landinu.