153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

varamenn taka þingsæti.

[15:01]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Borist hafa bréf frá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að Ásmundur Friðriksson verði fjarverandi á næstunni og frá formanni þingflokks Flokks fólksins um að Eyjólfur Ármannsson muni ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni.

Þá hafa borist bréf frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Þórarni Inga Péturssyni og Steinunni Þóru Árnadóttur um að þau verði fjarverandi á næstunni.

Í dag taka því sæti á Alþingi 2. varamaður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Ingveldur Anna Sigurðardóttir, en 1. varamaður hefur boðað forföll, 1. varamaður á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, Hermann Jónsson Bragason, 1. varamaður á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Jón Steindór Valdimarsson, 1. og 2. varamaður á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi, Eva Sjöfn Helgadóttir og Indriði Ingi Stefánsson, 2. varamaður á lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi, Halldóra K. Hauksdóttir, en 1. varamaður hefur boðað forföll, og 1. varamaður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi norður, Eva Dögg Davíðsdóttir.

Jón Steindór Valdimarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Indriði Ingi Stefánsson og Eva Dögg Davíðsdóttir hafa áður tekið sæti á Alþingi og er boðin velkomin til starfa að nýju.

Landskjörstjórn hefur gefið út tilkynningu á grundvelli 1. mgr. 113. gr. kosningalaga til Hermanns Jónssonar Bragasonar. Jafnframt hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundað til þess að fjalla um kosningu og kjörgengi hans.