Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram á þeirri vegferð að reyna að koma þingheimi í skilning um það sem er að gerast hérna. Ég ætla aðeins að lesa upp úr umsögn Rauða krossins um 6. gr., þó að ég sé reyndar að fjalla hérna um b-lið 8. gr. frumvarpsins, en samhengið kemur í ljós þegar ég les, með leyfi forseta:

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Ég geri hlé á tilvitnuninni. Hér er sannarlega verið að tala um þjónustusviptinguna sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta í tengslum við 8. gr. er sú að í 8. gr. eru heimildir stjórnvalda auknar til að flytja fólk úr landi án þess að það sé hægt að flytja það úr landi, sem sagt vísa því úr landi án þess að flytja það úr landi. Það þýðir að hér mun fjölga þeim einstaklingum sem hafa fengið synjun um dvalarleyfi en ekki er hægt að flytja þau til þess ríkis sem á að vísa þeim til. Það mun því stækka þann hóp sem við vitum nú þegar að inniheldur einhverja tugi einstaklinga sem til stendur að vísa á götuna. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Það er vel þekkt, og ekki séríslenskt vandamál, að erfiðlega gangi að flytja umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því sem í raun hafa oft ekkert með umsækjendur sjálfa að gera, en ákvæðið verður einnig að skoðast í samhengi við þá tillögu í frumvarpinu sem fram kemur í b-lið 8. gr. þar sem lagt er til að synja skuli um efnismeðferð ef umsækjandi hefur slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað.“

Ég ætla að gera aftur hlé á tilvitnuninni hérna. Hér er akkúrat komið að kjarna málsins. Í b-lið 8. gr. er sem fyrr segir verið að auka heimildir Útlendingastofnunar til þess að vísa fólki eitthvert, þangað sem Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að fólk dveljist. Þetta er algerlega óháð því hvort viðkomandi hafi heimild til komu eða dvalar í viðkomandi ríki eða hvort gerðir hafa verið samningar við viðkomandi ríki um viðtöku. Þetta þýðir það að fólki verður synjað um dvalarleyfi en það er ekki hægt að flytja það þangað. Hvað gerist þá? Þá er fólk hér í þessu millibilsástandi sem kemur fram í mjög nýlegri skýrslu Rauða krossins um einstaklinga í umborinni í dvöl. Sú skýrsla fjallar um nákvæmlega þennan hóp. Með b-lið 8. gr. er verið að auka á vandamál sem ég held við séum öll sammála um að sé vandamál, að hér eru einstaklingar sem búið er að synja um dvalarleyfi og ekki er hægt að flytja. Það er verið að auka á það vandamál. Útskýrið nú fyrir mér hvernig þetta á að auka skilvirkni og straumlínulaga kerfið og spara ríkissjóði fjármuni, því að það mun ekki gera það.

Ég ætla að fá að endurtaka það sem kom fram í umsögn Rauða krossins vegna þess að þetta snýst ekki bara um mannréttindi þessa fólks. Sannarlega gerir það það, þetta snýst um mannréttindi þessa fólks, en það snýst líka um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Í hvernig samfélagi viljum við búa? Hvað gerist þegar fólk, hvað þá í slæmu ásigkomulagi, jafnvel andlega eða líkamlega, líka í örvæntingu, í örvæntingarfullri aðstöðu, er svipt allri grunnþjónustu? Það er svipt húsaskjóli, svipt allri aðstoð, fjárhagslegri aðstoð, sem er reyndar 10.000 kr. á viku, og jafnvel heilbrigðisþjónustu, þó að það sé eitthvað umdeilt að hvaða marki hún verður felld niður eða að hversu miklu marki hún er nú þegar og það er mjög óljóst hvaða heilbrigðisþjónusta verður felld niður en það er alveg ljóst að hlutir eins og geðheilbrigðisþjónusta verður sannarlega felld niður. Fyllum göturnar af fólk í þessari aðstöðu, gerum það endilega. Og hvað gerist? Ég endurtek, með leyfi forseta:

„Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Þetta var úr umsögn Rauða krossins á Íslandi, ekki úr einhverri popúlismastefnu Pírata.