Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:58]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið þar sem ég var að fara yfir umsagnir sem bárust úr mörgum mismunandi áttum. Þær eiga það sameiginlegt að gagnrýna mjög harðlega þetta tiltekna frumvarp til laga. Ég var hér að tala um umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Það sem ég vildi tala um í þeirri umsögn var að þau nefna þar tímafresti.

„Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur mikilvægt að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti enn þeirrar réttarverndar að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar frestist brottflutningur þeirra umfram 12 mánuði frá komu þeirra til landsins.“

Einnig gagnrýna þau takmarkanir á fjölskyldusameiningu, sem er í 13. gr. frumvarpsins. Þá segir skrifstofan að hún leggist gegn þessari breytingu. Aðskilnaður fjölskyldumeðlima geti verið einstaklingum á flótta afar erfiður og haft áhrif á líðan og möguleika þeirra til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Einnig segja þau að jafnréttismat frumvarpsins sé ófullnægjandi, að ekki sé tekið tillit til t.d. fatlaðs fólks eða hinsegin fólks.

Mannréttindaskrifstofa Íslands sendi einnig sína umsögn og hér verður samantekt úr henni reifuð.

Mannréttindaskrifstofa Íslands áréttar skort á samráði og vísar til yfirlýsingar 15 samtaka. Sjálfkrafa kæra til kærunefndar útlendingamála, sbr. 2. gr. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að þetta ætti að vera valkvætt — það takmarkar tíma til að glöggva sig á efni ákvörðunar Útlendingastofnunar og til að afla nauðsynlegra gagna og er til þess fallið að valda réttindamissi. Mannréttindaskrifstofa Íslands vísar til meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem andmælaréttar og rannsóknarreglu, og réttinn til réttlátrar málsmeðferðar. Einnig gagnrýnir Mannréttindaskrifstofa Íslands að þjónusta falli brott eftir 30 daga. Þetta eru grundvallarmannréttindi, svo sem réttur til heilsu og mannsæmandi lífs. Réttindi þessi eru tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, en Ísland er aðili að samningnum og hefur fullgilt hann. Íslensk stjórnvöld mega ekki fara gegn þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem þau hafa undirgengist.

„Verður að telja óásættanlegt að svipta fólk þjónustu, skilja það eftir heimilislaust, án framfærslu og viðunandi heilbrigðisþjónustu. Býður það upp á mansal, ofbeldi og aðra hagnýtingu á aðstæðum viðkomandi.“