Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það munaði nú litlu að ég næði því en það náðist ekki alveg hjá mér að fara yfir það frumvarp sem varð að lögum nr. 149/2018, sem ég myndi segja, svona gróft á litið, að sé eina almennilega efnisbreytingin sem núverandi ríkisstjórn hefur gert á útlendingalögum og þar hafi verið stigin afgerandi skref í átt að blessaðri skilvirkninni en frá mannúðinni.

Ég var búinn að fara yfir það hvernig þarna hefði verið víkkuð út heimild formanns og varaformanns kærunefndar útlendingamála til að úrskurða einir í málum, sem Rauði krossinn á Íslandi varaði við að gæti leitt til óvandaðri afgreiðslu. Síðan var komið þarna inn ákvæði um það sem kallað er skilvirkara boðunarferli. Það voru sem sagt ákvæði um tvíteknar viðtalsboðanir umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ráðuneytið lagði til að fella það niður, það yrði bara einföld boðun og ef umsækjandi nýtti ekki það boð leiddi það einfaldlega til þess að ákvörðun yrði ekki tekin í máli hans. Þetta benti Rauði krossinn á að gæti leitt til, mig langar ekki að segja verri þjónustu af því að þetta er eiginlega miklu alvarlegra. Þetta snýst um það að fólkið sem er verið að boða — ja, oft er Útlendingastofnun ekki endilega að koma skilaboðum til fólks á tungumáli sem fólk skilur. Oft verður misbrestur á því að boð skili sér alla leið og það eru bara ýmsar réttmætar ástæður sem geta leitt til þess að umsækjandi bregst einhverra hluta vegna ekki við þessu fyrsta boði. Og miðað við hversu íþyngjandi afleiðingarnar eru fyrir umsækjandann af því að taka burt seinna boðið sem svona varnagla fyrir umsækjanda, og hversu léttvægt það er fyrir ríkisstofnun að tvítaka boðin frekar en að senda þau bara einu sinni, þá var dálítið erfitt að sjá rökin.

Staðan er náttúrlega sú að ef það kæmi til þess að umsækjandi missti rétt sinn til að koma í viðtal hjá Útlendingastofnun og tjá sig þar um ástæður flótta þá er bara nokkuð augljóst að það getur haft verulega neikvæð áhrif á umsókn hans. Þó að stofnunin sé nú ekki alltaf með opnustu eyrun í bænum þegar fólk mætir til hennar og lýsir málum sínum þá er nú aðeins skárra að mæta fólki sem hlustar ekkert mjög vel á þig en að fá ekki einu sinni að mæta þessu fólki til að segja af hverju þú ættir að fá samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd.

Þegar við skoðum hvernig umfjöllun þessa frumvarps hér á löggjafarþinginu 2018–2019 fór fram þá teiknuðust aftur upp kunnuglegar myndir í atkvæðagreiðslum þannig að ákvæði um það að formaður og varaformaður gætu úrskurðað einir frekar en að það væri fjölskipuð kærunefnd var samþykkt með atkvæðum stjórnarflokkanna með hjásetum nokkrum úr Samfylkingu og öllum í Viðreisn á meðan Píratar greiddu atkvæði gegn því einir flokka. En þarna var myndin farin að raskast frá því sem við sáum fyrir þetta kjörtímabil vegna þess að allt í einu voru Vinstri græn kominn í það lið að greiða atkvæði með ákvæði sem gekk gegn réttindum fólks á flótta.