153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við höldum áfram yfirferð yfir greinargerð frumvarpsins um mannréttindasáttmála Evrópu, með leyfi forseta:

„Ísland heyrir til þess minni hluta aðildarríkja að mannréttindasáttmála Evrópu þar sem ákvæði hans teljast ekki hluti af landsrétti, heldur eingöngu skuldbinding ríkisins að þjóðarétti. Við fullgildingu íslenska ríkisins á sáttmálanum virðist ekki hafa komið sérstaklega til skoðunar að lögfesta ákvæði hans, enda var fremur fágætt á þeim tíma að fara þannig með þjóðréttarsamninga hér á landi. Þess í stað virðist hafa verið gengið út frá því að ríkið mundi efna skuldbindingar sínar með aðlögun landsréttar að ákvæðum mannréttindasáttmálans. Ekki virðist hafa þótt þörf á sérstökum aðgerðum til slíkrar aðlögunar, enda voru engar breytingar gerðar á íslenskri löggjöf í tengslum við fullgildingu sáttmálans. Þetta sést meðal annars af eftirfarandi orðum sem þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, lét falla í umræðum á Alþingi haustið 1951 um tillögu til þingsályktunar um heimild til að fullgilda mannréttindasáttmálann: „Um þau réttindi, sem hér eru talin, er það í stuttu máli að segja að í öllu því sem nokkru máli skiptir, þá eru þau réttindi nú þegar beinlínis veitt borgurunum berum orðum í íslenskri löggjöf, að nokkru leyti í sjálfri stjórnarskránni, eða þá að það eru slík grundvallarréttindi að þau eru talin felast í meginreglum íslenskra laga, jafnvel þó að það sé ekki berum orðum fram tekið. Þess vegna má segja að I. kafli þessa samnings sé hér á landi engin nýjung því þar eru talin upp þau réttindi sem borgararnir þegar hafa notið og talin eru sjálfsagður þáttur í verndun íslenskra borgara gegn ofurvaldi ríkisins eða ásælni af annarra hálfu.““

Orð sem vægast sagt má segja að séu kaldhæðnisleg einmitt miðað við tilefni nákvæmlega þessa frumvarps sem ég er að fjalla hérna um. Það er sem sagt einfaldlega ekki satt þegar á hólminn er komið því þá dugðu íslensk lög ekki til þess að uppfylla þær skuldbindingar sem mannréttindasáttmálinn fól í sér, þau dugðu ekki til að tryggja réttindi borgaranna.

Aftur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu var í upphafi gengið út frá því að íslensk löggjöf samrýmdist í hvívetna ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og nægilegt væri þannig, til að efna þjóðréttarskuldbindingu ríkisins, sem komst á með fullgildingu samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, að beita aðferðum aðlögunar landsréttar að sáttmálanum. Með því að ekki þótti tilefni til lagabreytinga vegna aðlögunar í byrjun hefur væntanlega verið gert ráð fyrir að annað þyrfti ekki til en að gæta að því í framtíðinni að ný lagasetning yrði einnig í samræmi við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Ekki er ljóst hversu mikil athugun átti sér stað á íslenskri löggjöf í tengslum við fullgildingu samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis á árinu 1953. Hafa verður í huga að samningurinn var fullgiltur áður en farið var að beita einstökum ákvæðum sáttmálans við úrlausn kærumála. Á þeim áratugum, sem liðnir eru, hefur efnisinntak mannréttindaákvæðanna skýrst og jafnvel breyst fyrir túlkun mannréttindanefndarinnar og mannréttindadómstólsins þannig að nú eru í mörgum efnum gerðar strangari kröfur til aðildarríkjanna en séð varð í upphafi. Hefur mannréttindasáttmálinn því án efa haft meiri áhrif hér á landi, sem og annars staðar í Vestur-Evrópu, en sjá mátti fyrir. Með því að sáttmálinn hefur ekki verið lögfestur hér á landi hafa áhrif hans aðallega komið fram með þrennu móti. Í fyrsta lagi hefur reynt nokkuð á áhrif sáttmálans í málum fyrir íslenskum dómstólum, þar sem úrlausn hefur verið háð reglum landsréttar sem kunna að vera í andstöðu við ákvæði sáttmálans. Í öðru lagi hafa kærumál á hendur íslenska ríkinu vegna brota á sáttmálanum komið til úrlausnar fyrir mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóli Evrópu, en þar hefur orðið að taka afstöðu til þess hvort íslenskur landsréttur samrýmist ákvæðum sáttmálans um tiltekin atriði. Í þriðja lagi hefur gætt áhrifa af mannréttindasáttmálanum við lagasetningu hér á landi og eru jafnvel dæmi um það að lögum hafi verið breytt vegna hættu á að þau hafi ekki samrýmst ákvæðum sáttmálans. Ástæða er til að huga nánar að þessu þrennu.“

Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá til að útskýra það betur.