Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég held hérna áfram með niðurbútaða ræðu mína. Ég er að fjalla um b-lið 8. gr. frumvarpsins sem veitir Útlendingastofnun heimild til að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd þangað sem stofnunin finnst sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi dveljist. Ég er að fara yfir umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem gerði alvarlegar athugasemdir við þessi ákvæði og lagði raunar til mjög skýrar breytingar á því sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar sá ekki nokkra ástæðu til að taka til greina. Það er nefnilega þannig að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er ekki alfarið á móti því að fólk setji ákvæði af þessu tagi þó að margir séu það, enda er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna alls ekki þekkt fyrir að vera róttæk stofnun. Hún tryggir að ríki virði lágmarksréttindi flóttafólks og að löggjöf og framkvæmd í ríkjum séu í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna.

Ég er búin að fara yfir umfjöllun Flóttamannastofnunar um það sem kallað er fyrsta griðland eða fyrsta ríkið sem þar sem alþjóðleg vernd er veitt, sem er að sögn frumvarpshöfunda það sem er í gangi í b-lið 8. gr. Svo er hins vegar ekki. Það er misskilningur. Þar er um að ræða reglur um svokallað þriðja land þar sem alþjóðleg vernd er veitt. Hver er munurinn? Jú, einstaklingur flýr heimaríki sitt vegna ofsókna inn í eitthvert land, fær þar vernd, heldur svo áfram til Íslands. Þá má Ísland vísa viðkomandi til baka til þess lands þar sem hann fékk vernd, t.d. til Grikklands. Það væri regla um fyrsta griðland. Hins vegar er hér verið að tala um að veita Útlendingastofnun heimild til að vísa einstaklingi eitthvað enn annað. Það er þá það sem kallað er þriðja land þar sem alþjóðleg vernd er veitt. Vandamálið er að í ákvæðinu sem lagt er til í þessu frumvarpi er Útlendingastofnun ekki gert að pæla neitt í því hvaða skilyrði eru fyrir því að senda flóttamenn til þriðja lands, en þau eru eftirfarandi — ég ætla að lesa upp úr íslenskri þýðingu á umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta:

„Varðandi þá umsækjendur sem hafa ekki enn hlotið alþjóðlega vernd í þriðja landi en hefðu getað hlotið eða geta hlotið vernd í því ríki er hugtakið „öruggt þriðja ríki“ í gildi. Áður en að brottflutningi kemur er mikilvægt að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort þriðja ríkið muni, í samræmi við viðeigandi staðla alþjóðalaga:

a. hleypa manneskjunni (aftur) inn í landið,

b. veita manneskjunni sanngjarna og skilvirka málsmeðferð til að ákvarða réttarstöðu hennar sem flóttamanns og aðgang að öðru sem tilheyrir alþjóðlegri vernd,

c. leyfa manneskjunni að vera í landinu á meðan verið er að ákvarða réttarstöðu hennar,

d. leyfa manneskjunni að njóta meðhöndlunarstaðla sem eru í samræmi við flóttamannasamninginn frá 1951 og alþjóðlega mannréttindastaðla, þar á meðal, en ekki einvörðungu, vernd gegn því að vera send aftur til lands þar sem hún er í hættu; og

e. muni viðurkenna réttarstöðu manneskjunnar sem flóttamanns, ef metið er að hún sé flóttamaður, og veita henni leyfi til löglegrar dvalar þar.

Samkvæmt tillögunni [í frumvarpinu] á vernd í þriðja landinu að vera í samræmi við flóttamannasamninginn frá 1951 en ekki er nauðsynlegt að þriðja landið sé undirritunaraðili að flóttamannasamningnum frá 1951. Flóttamannastofnunin hefur staðfastlega haldið því til haga að það að vera „aðildarríki að flóttamannasamningnum frá 1951 og að hafa ótakmarkaða mannréttindagerninga í gildi“ sé „mikilvægur vísir“ að því að þar sé um virka vernd að ræða.

„[Því er] aðeins unnt að tryggja aðgang sem er virkilega og varanlega í samræmi við mannréttindastaðla og meðhöndlunarstaðla þá sem koma fram í flóttamannasamningnum frá 1951 og bókuninni frá 1967“ — ég get útskýrt það síðar í annarri ræðu ef þið viljið — „ef ríkinu er skylt að veita þann aðgang undir alþjóðalögum, ef það hefur komið í gildi innlendum lögum til að innleiða samningana sem um ræðir og treysta má því að lagaframkvæmd gefi til kynna að ríkið uppfylli í einu og öllu skyldur sínar gagnvart alþjóðalögum.““

Það er alveg ljóst að í frumvarpinu sem við erum að ræða hér er ekki gerð krafa um það móttökuríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Hvernig þykist ég geta fullyrt það? Vegna þess að í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Ekki er gerð krafa um að viðkomandi ríki sé aðili að flóttamannasamningnum en nauðsynlegt er að þau réttindi sem mælt er fyrir um í honum séu virt.“

Ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.