Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég stenst ekki freistinguna vegna þess að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir nefndi þessa hugmynd um að velta byrði á milli ríkja. Þetta er náttúrlega hugmynd sem er í rauninni kjarninn í sameiginlegu kerfi Evrópuríkja um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem íslensk stjórnvöld hafa alltaf túlkað mjög einhliða. Frá þeirra bæjardyrum séð virðist veltingurinn bara snúast um að velta fólki frá Íslandi og yfir á önnur ríki á meðan reglunum er miklu frekar ætlað að taka á ástandi eins og skapaðist í suðurhluta Evrópu í kjölfar Sýrlandsstríðsins þegar meginþungi fólks á flótta frá Sýrlandi kom til Grikklands og Ítalíu og ríkja sem eru landfræðilega næst Sýrlandi og urðu þar með fyrsta viðkomuríki viðkomandi innan Schengen-svæðisins. Æ síðan hefur Ísland gert allt hvað það getur til að koma sér undan því að deila þeim byrðum með gríska ríkinu. Hér hefur ýmislegt verið reynt til þess að endursenda fólk til Grikklands þrátt fyrir að grísk stjórnvöld og félagasamtök og bara allt fólk sem eitthvað hefur kynnt sér málin hafa mælst til þess að ríki fari miklu frekar að stunda það að taka til sín fólk úr gríska verndarkerfinu, hvað þá gríska hæliskerfinu, til að létta byrðum af gríska ríkinu og vegna þess að aðstæður flóttafólks í Grikklandi eru bara ómögulegar. Þá skiptir mjög litlu máli hvort um er að ræða fólk sem er með virka umsókn um alþjóðlega vernd eða fólk sem er búið að fá umsókn sína samþykkta. Staðan er þess vegna þessi, eins og fram kemur í samantekt Rauða krossins frá því í apríl á síðasta ári, með leyfi forseta:

„Verði einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi sendir þangað aftur munu þeir vegna stöðu sinnar sem flóttamenn eiga erfitt uppdráttar þar í landi vegna alvarlegrar mismununar m.a. á grundvelli kynþáttar, auk þess sem vænta má að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í landinu.“

Þessi skýrsla Rauða krossins stangast á við það sem heyrist voðalega oft úr herbúðum þeirra sem vilja nýta sér þessi ákvæði, sem er ætlað að jafna byrðar á milli ríkja, til að koma sem mestum byrðum yfir á Grikkland. Vegna þess að það er tvennt ólíkt, einhver ber lagabókstafur eins og t.d. varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar sem grísk lög mæla fyrir um jafnan aðgang flóttafólks og grískra ríkisborgara að heilbrigðiskerfinu í Grikklandi, en reyndin er sú að raunverulegt aðgengi flóttafólks að heilbrigðiskerfinu er verulega takmarkað. Þar spilar auðvitað inn í niðurskurður síðustu ára. Árin áður en flóttamannastraumurinn hertist þarna í kringum 2015 var gríska ríkið búið að ganga í gegnum fjárhagsþrengingar á einhverjum skala sem ég held að meira að segja við sem fylgdumst með efnahagshruninu á Íslandi eigum erfitt með að ímynda okkur. Þannig að þó að í orði kveðnu sé þarna aðgengi að heilbrigðisþjónustu þá er reyndin önnur.