Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held að það sé ágætt að rifja pínulítið upp tilefni alls þess sem við erum að ræða. Í frumvarpinu, bara svo við grundvöllum aðeins umræðuna og framhaldið á henni, er greinargerð og í 4. kafla hennar er fjallað um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Með leyfi forseta, segir þar einfaldlega: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“ Það er rosalega skrýtið miðað við nákvæmlega það sem frumvarpið fjallar um. Það þarf einhvers konar viljandi blindu til að átta sig ekki á því að þetta varðar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er einmitt að miklu leyti til unninn upp úr mannréttindasáttmála Evrópu. Í framhaldinu er sagt, með leyfi forseta:

„Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Við samningu frumvarpsins hefur verið tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands þannig að sem best samræmi verði milli laga og þjóðréttarreglna.“

Ekki að það sé samræmi heldur sem best samræmi, sem passar ekki við það að ekki sé tilefni til að skoða þetta sérstaklega í samræmi við stjórnarskrá. Þetta fer síðan meiri hluti nefndarinnar yfir í nefndaráliti sínu og segir, með leyfi forseta:

„Í umsögnum um málið hefur verið vísað til nokkurra ákvæða stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga vegna ólíkra greina frumvarpsins, en Ísland á aðild að ýmsum mannréttindasamningum sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins“ — þar sem mannréttindasáttmáli Evrópu kemur fyrir — „sem geta haft áhrif á réttarstöðu útlendinga hér á landi. Helstu ábendingar varða 2. gr. frumvarpsins um sjálfkrafa kæru, 4. gr. um heimild lögreglu til að afla vottorða […] 6. gr. frumvarpsins um niðurfellingu réttinda eftir endanlega synjun …“ — og svo „um stöðu og réttindi barna og réttindi fatlaðs fólks.“

Það eru fleiri atriði sem meiri hlutinn nefnir ekki hér en þetta er sem sagt grundvöllurinn að því sem við erum að reyna að benda á, að við erum búin fá umsagnaraðila sem eru mjög reyndir í mannréttindamálum sem benda okkur á að mörg atriði frumvarpsins stangast á við margar greinar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála. Til að byrja með segir í frumvarpinu að ekki sé tilefni til þess að skoða hvernig það samræmist stjórnarskrá, sem er algjörlega fáránlegt. Í nefndaráliti er viðurkennt: Jú heyrðu, það var bent á ýmislegt og við ætlum að skoða hvernig það lítur út. Ég á eftir að fara aðeins betur yfir nefndarálitið og hvernig það er ekki útskýring á því hvernig frumvarpið stenst mannréttindasáttmála og stjórnarskrá heldur eru bara fullyrðingar í því, það má frekar orða það þannig. Það nær ekki á dýptina í rökum til þess að sýna fram á að áhyggjur umsagnaraðila séu ekki réttar, langt frá því. Þess vegna virðist vera að það þurfi að fara, ég veit ekki, þetta djúpt í málið. Mér finnst það alla vega, miðað við hvernig það er algjört skilningsleysi á því um hvað málið fjallar, á hvaða réttindum þetta mál byggist, einfaldlega og greinilega vera tilefni til þess að fara yfir það hvaðan við erum að fá þessa mannréttindasamninga, af hvaða tilefni við erum að fá þá og hvert sé innihald þeirra.

Til að reyna að koma meiri hluta þingsins í skilning um það byrjaði ég á að fara yfir helstu atriði allra umsagnanna, til að telja upp öll þau atriði sem þar er bent á að fari á skjön við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Ég hef síðan núna verið að fara yfir greinargerð með frumvarpi til laga vegna mannréttindasáttmála Evrópu þar sem er verið að útskýra hvaðan við erum að fá þetta viðmið í nútímasamfélagi sem við höfum viljað halda síðan eftir seinni heimsstyrjöldina. Ég hef verið að fara yfir hluta ráðherranefndarinnar og fer síðan næst í kaflann almennt um gildi mannréttindasáttmála Evrópu í aðildarríkjunum, það er nokkuð eftir. En þetta er eitthvað sem virðist þurfa að kenna meiri hlutanum því að einhverra hluta vegna er hann bara að loka augunum fyrir þessum umsögnum sérfræðiaðila sem hafa mikla þekkingu á þessu sviði og sem, samkvæmt orðum forsætisráðherra í fyrra starfi sem formaður stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu, átti tvímælalaust (Forseti hringir.) að hlusta á. En einhverra hluta vegna er ekki hlustað á þessa aðila lengur. — Ég bið forseta vinsamlegast um að skrá mig aftur á mælendaskrá.