Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:57]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í fyrri ræðu er afar kunnuglegt um að litast hér í salnum og ljóst að samráðið er ekki fyrir hendi. Því ætla ég að bera niður í einni af umsögnunum sem ekki virðist hafa verið tekið mark á. Hún er frá Hafnarfjarðarbæ og ætla ég að lesa upp úr henni, með leyfi forseta:

„Stoðdeild flóttafólks og umsækjenda um vernd í Hafnarfirði vill koma á framfæri athugasemdum vegna ákveðinna annmarka sem snúa að því þegar málsmeðferð er komin út fyrir stjórnsýslustig. Enginn tímarammi er á málsmeðferðartíma hjá umsækjendum sem hafa farið með mál sitt fyrir dómstóla. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, 8. gr. og 17. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir tímafrestum vegna málsmeðferðar á stjórnsýslustigi. Við erum með umsækjendur í mjög erfiðri og langri biðstöðu sem hefur virkilega slæmar afleiðingar á líðan fólks, versta tilfellið er þar sem umsækjandi hóf mál sitt í byrjun árs 2020 og fékk niðurstöðu frá kærunefnd innan tímafrests en fyrirtaka máls fyrir dómi er enn ekki ljós. Þær tímasetningar sem fjölskyldan hefur fengið á fyrirtöku hjá dómstólum frestast ítrekað og ekki má rekja frestun til umsækjanda sjálfs. Í þessum fjölskyldum er oft um að ræða börn og sum þeirra eru í mjög erfiðri stöðu út frá stuðningi sem þau þurfa og biðstaðan spilar þar mikinn þátt í því hvort stuðningur og meðferðaráætlanir sérfræðinga, fjölskyldu- og barnamálasviðs og annarra skili árangri. Við sjáum oft að mál hafa verið endurupptekin hjá Útlendingastofnun þegar umsækjendur hafa ekki farið með málið fyrir dómstóla. Frestun réttaráhrifa hefur gert það að verkum að Útlendingastofnun getur ekki tekið til skoðunar að endurupptaka mál þó svo talsmenn og/eða við bendum á virkilega slæmar kringumstæður hjá fjölskyldum vegna barnaverndarmála eða annarra kringumstæðna. Þannig sjáum við mál festast í kerfinu og enginn sjáanlegur endir er á málsmeðferð. Teljum við því þurfa að skoða vel mál sem komin eru út fyrir málsmeðferð á stjórnsýslustigi enda getur ekki sú biðstaða sem fjölskyldur eru settar í, sér í lagi börn, staðist barnasáttmálann og önnur lög sem sett eru í þágu barna.

Þá er í greinargerð með frumvarpinu, í kafla 3.1. og um 8. gr., bent á að breytingu á 2. mgr. 36. gr. sé ætlað að skýra óljóst orðalag greinarinnar svo lokafrestur sé skýr og miði við þann tíma þegar máli er lokið á stjórnsýslustigi. Í framkvæmd hafi lokafrestur verið túlkaður af kærunefnd útlendingamála þannig að miðað sé við þann tíma þegar viðkomandi hefur farið að landi brott en ekki þegar máli er endanlega lokið á stjórnsýslustigi. Viljum við benda á að í þessu samhengi þurfi einnig að huga að tímafresti þegar málsmeðferð er komin út fyrir stjórnsýslustig. Í framkvæmd dragast brottflutningar fólks á langinn vegna atriða sem ekki má rekja til umsækjanda sjálfs, svo sem vegna öflunar vegabréfa eða tilskilinna leyfa. Ekki sé eðlilegt að hafa umsækjendur og sér í lagi börn of lengi í slíkri biðstöðu og þyrfti að vera til staðar heimild til endurupptöku fari slíkur biðtími fram úr meðalhófi.“

Þetta er ein af þessum umsögnum sem ekki var tekið mark á. Hér erum við að tala um fólk í veikri stöðu, viðkvæmri stöðu. Við erum að tala um sérfræðinga sem hafa fyrir framan sig afleiðingarnar af því hvernig þessum málum er fyrir komið í dag og eru að fara fram á ákveðna hluti, eru að fara fram á ákveðnar breytingar. Þær breytingar er ekki að finna í frumvarpinu heldur einhverjar allt aðrar. Það leysir ekki vandamálið. Við þurfum að gera betur.