Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:22]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Við erum hér að fjalla um lög um útlendinga og við vinnslu þeirra laga hefur verið litið á ótalmargar umsagnarbeiðnir og hef ég í nokkrum ræðum mínum verið að gera grein fyrir þeim. Hér síðast var ég að gera grein fyrir umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og ætla ég að halda áfram þar sem frá var horfið, með leyfi forseta:

„Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til. […] Við breytingar á verkefnum veiðifélaga, með lögum nr. 50/2015, sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.

Í öðru lagi er í athugasemdum með frumvarpinu tekið fram að breytingartillögur séu „í samræmi við löggjöf og framkvæmd annar staðar á Norðurlöndum“ (um 6. gr.), „umgjörð annarra Evrópuríkja“ (um meginefni frumvarpsins), „að fyrirmynd annarra Evrópuríkja“ (um endurtekna umsókn). Þessi tilgreining fyrirmynda frumvarpsins er með öllu ófullnægjandi í ljósi þess að útfærsla og framkvæmd reglna á réttarsviðinu er að ýmsu leyti fjölbreytt á milli ríkja. Ef vísa á til fyrirmynda frá öðrum ríkjum er rétt að tilvísun fylgi þar sem útskýrt er til hvaða ríkja er vísað og hvort öll Evrópuríki eða öll Norðurlönd hafi samræmt viðkomandi reglu eða framkvæmd. Ef Norðurlönd hafa innleitt framkvæmd sem er önnur en í öðrum Evrópuríkjum er rétt að tekin sé afstaða til þess hvers vegna frumvarpshöfundar telja aðra leiðina ákjósanlegri en hina. Án slíkra útskýringa eru óljósar tilvísanir til erlendra laga ekki gagnlegar við mat á efni frumvarpsins. […]

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skv. 7. gr. laganna sæti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skuli greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar. MHÍ vekur athygli á því að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn málsins. Fram hefur komið að Útlendingastofnun áskilur sér a.m.k. 10 daga frest til að afhenda öll gögn. Tímafrekt getur einnig verið að afla gagna annars staðar frá. Það gefur umsækjanda því afar skamman frest til að vinna greinargerð sína, svo skamman að illmögulegt getur verið fyrir umsækjanda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati MHÍ brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem m.a. er tryggður í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög 62/1994. Hér er því um umtalsverða skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að ræða. MHÍ hvetur Alþingi til að endurskoða þetta ákvæði til að tryggja að grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd séu tryggð.“

Ég er ekki nærri því búinn að ná að fara yfir þessa umsögn og mér finnst ég þurfa að víkja að henni í seinni ræðum. En mér þykir með ólíkindum að lesa þetta og að haldið hafi verið áfram með vinnslu frumvarpsins þrátt fyrir slíkar athugasemdir. Það er óverjandi.