136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú sýnist mér eins og hv. þingmaður hafi fengið olíu í fiðrið sitt og eigi erfitt bæði með flug og sund. Ég get staðfest gagnvart hv. þingmanni að það skortir ekkert á minn hug til að fylgja því að Íslendingar sæki allan sinn rétt sem þeir hafa í þessu máli. Ég held að sá réttur sé umtalsverður. Ég held að hann standi bæði andspænis bönkunum tveimur, Landsbankanum gamla og Kaupþingi gamla. Ég held eins og hér hefur áður komið fram í mínu máli við 2. umr. að það sé fyrst og fremst skilanefndanna að standa fyrir slíkri málssókn. En ég held líka að íslenska ríkisstjórnin eigi að leita þeirra ráða sem kunna að vera fyrir hendi til að sækja þennan rétt á öðrum vettvangi. Ég er ekki nægilega lögfróður til að geta bent nákvæmlega á með hvaða hætti það er.

Ég hjó líka eftir því að sá maður sem hv. 1. flutningsmaður þessa máls nefndi sem annan höfund greinargerðarinnar ásamt sjálfum sér sagði í sjónvarpi að hann teldi sjálfur að það kynni að verða erfitt að finna beinlínis leiðirnar til að sækja það mál fyrir alþjóðlegum dómstólum en mér sem ólögfróðum manni finnst ákaflega merkilegt að ekki skuli vera þannig samskiptaleiðir og þannig samningar millum þjóða heimsins að þeir tryggi að þegar ein þjóð fer með slíkri gerningahríð og slíku ranglæti á hendur annarri skuli ekki vera fortakslaus farvegur til að sá sem fyrir mótlætinu verður geti sótt sinn rétt ef hann telur að hann hafi hann, eins og við höfum alveg klárlega í þessu tilviki.

Þá vísa ég aftur til Helga Áss Grétarssonar stórmeistara, hann var ekki alveg handviss um að slíkur farvegur væri fyrir hendi.