139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar ef andsvar skyldi kalla. Konur geta að sjálfsögðu haft karllæg sjónarmið. Samfélagið er þannig upp byggt. Það er ekki eingöngu um að ræða karlmenn þegar talað er um karllæg sjónarmið, margar konur hafa þau greinilega líka. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á það að forsætisnefnd væri eingöngu skipuð konum. (Gripið fram í: Var.) Öllu heldur var eingöngu skipuð konum. Það kann að vera að þær konur sem þar sitja hafi karllæg sjónarmið og séu sér ekki meðvitaðri en raun ber vitni um mikilvægi þess að breyta verklagi, vinnulagi og tímalagi á þingi.

Það að konur kenni í 90% tilvika í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að konur beini drengjum og stúlkum inn í kvenlæg og karllæg störf, kynbundin kvenna- og karlastörf, tel ég ekki vera. Ég hef hins vegar þá trú að þar sem fyrirmyndin er eingöngu annað kynið getur allt sem sú fyrirmynd sýnir orðið leiðbeinandi og ákveðinn leiðarvísir. Konur og karlar eru ekki eins, hafa aldrei verið og munu aldrei verða, en sjónarmið þurfa ekki og eiga ekki eingöngu að vera karllæg. Það skiptir máli að kvenlæg og karllæg sjónarmið ráði för alls staðar og mín skoðun er sú að menntun sé grunnur að því að breyta viðhorfi, hugmyndum og öðru. Til að byggja upp betra og réttlátara samfélag eiga hvorki karllæg né kvenlæg sjónarmið að vera ríkjandi, heldur eiga áherslur beggja sjónarmiða að ráða för.