143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að svara á þessum stutta tíma öllum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint, en það er eins og ég sagði áðan ákveðin endurskoðun í gangi. Þar er m.a. komið inn á málefni Eyþings eins og rætt var hér um og þróunarstyrkina o.s.frv. til þess að meta hvort rétt hafi verið gefið og skipt með sanngjörnum hætti.

Ég verð að segja að þegar menn tala stöðugt um almannahag og almannaheill í umræðunni þá verði þeir að muna að þetta liggur fyrir. Það er alveg sama hvað fyrrverandi innanríkisráðherra segir um þá ráðgjöf sem hann hafi fengið frá lögfræðingum sínum í innanríkisráðuneytinu, það eru nákvæmlega sömu lögfræðingar þar núna. Ráðgjöfin er afdráttarlaust sú — og niðurstaða þeirra lögfræðinga sem hafa haldið utan um málið fyrir ríkið, bæði þeirra sem komið hafa að því í mínu ráðuneyti og víðar, eins Samkeppniseftirlitsins — að þetta gangi ekki svona. Þannig að þegar menn gera kröfu um að ráðherra leysi málið öðruvísi þá er verið að gera kröfu um að ráðherra fari á skjön við lög. Það má vel vera að aðrir lögfræðingar þeirra hagsmunaaðila sem hér er rætt um túlki málið öðruvísi en ég get ekki farið gegn því með þeim hætti sem er verið að krefjast. Það þarf að gerast með heildstæðri endurskoðun á málinu sem er eitthvað sem við erum farin í og það verður að gerast með eðlilegum gagnsæjum og löglegum hætti.

Ég mun ekki fara gegn því áliti sem liggur fyrir af hálfu Samkeppniseftirlitsins, sem telur að umrædd aðgerð SSS standist ekki lög. Það hefur verið farið yfir það af hálfu þeirra sem gleggst til þekkja. Hér hrista menn hausinn af því þeir eru með lögfræðiálit frá SSS. Ég þekki það alveg jafn vel og þeir sem hér eru að tala um það. Það er ekki talið standast lög. Ef ég væri hér að mæla fyrir því að fara gegn Samkeppniseftirlitinu og fara gegn þeirri lögfræðilegu ráðgjöf sem þeir sem stóðu að þessari löggjöf unnu að og mæltu fyrir þá væri ég að ganga langt fram yfir þær heimildir sem ég hef. Eins og staðan er var ekkert annað í boði en að rifta þessum samningi — ekkert annað í boði.

Það var búið að reyna að ræða þessi mál við SSS í langan tíma, (Forseti hringir.) í marga mánuði. Nú fer fram ákveðin endurskoðun. Ég þori ekki að fullyrða hvað hún leiðir af sér (Forseti hringir.) og ætla að leyfa þeim sem koma að því frá sambandinu, frá landshlutasamtökunum, innanríkisráðuneytinu og öðrum (Forseti hringir.) aðilum að fara yfir það. Svo sjáum við hvort það breytir einhverju um þetta mál. En það er alveg (Forseti hringir.) skýrt að það er ekki talið heimilt að framkvæma þetta (Forseti hringir.) eins og til hefur staðið á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum.