136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan í ræðu minni að ég hefði ekki búist við því að Bændasamtökin gætu í sjálfu sér axlað ábyrgðina á einhvern hátt með einhverju samráði eða í samkomulagi um að setja þetta þak á vísitöluhækkanirnar. Ég skildi það mjög vel og mér finnst það eðlilegt, mér finnst það eðlileg afstaða Bændasamtakanna að þau geti ekki axlað þessa ábyrgð. Þetta er ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir. Ég ræddi þessi mál við forustumenn Bændasamtakanna. Þar ræddum við m.a. hvort einhver möguleiki væri á því að við færum sameiginlega í að útfæra búvörusamningana upp á nýtt þannig að greiðslurnar rynnu meira beint til bændanna sjálfra. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á og kom t.d. fram hérna við 1. umr. málsins að það er ýmiss konar svigrúm í þessum efnum.

Ég hef margoft lýst áhuga mínum á því að taka þátt í slíkri vinnu. Það mun ekki standa á mér eða mínu ráðuneyti að vinna að þeim málum með bændum. Þess vegna höfum við rætt um það hvort möguleikar væru á annarri útfærslu og ég hef tekið eftir því í umræðunni í þinginu frá því að þessi mál bárust fyrst í tal að það er greinilega sama sjónarmið uppi um það hjá þingmönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að afkoma bænda er ekki góð og þeir mega auðvitað ekki við tekjuskerðingu. Það er okkur alveg ljóst. Við vitum hins vegar hvað er að gerast og við vitum til hvaða úrræða við urðum að grípa vegna þess tekjubrests og þess útgjaldavanda sem ríkisútgjöldin eru í núna. Við höfum orðið að fara hér bæði inn í búvörusamninga og í almannatryggingakerfið, við vitum að úti um allt þjóðfélag eru menn að taka á sig kjaraskerðingu, jafnvel þeir sem ekkert mega við því vegna afkomu sinnar. Við erum í þröngri stöðu og þess vegna er stóra verkefnið það hvort við getum til að mynda reynt að útfæra búvörusamningana öðruvísi innan þess ramma sem við höfum, rúmlega 10 milljarða ramma, þannig að það gagnist bændum sem best fyrir þeirra beinu afkomu á næsta ári.