138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að allir sem hlusta á þetta komist að þeirri niðurstöðu að það væri afskaplega skynsamlegt ef forustumenn þingflokkanna settust niður og færu aðeins yfir málið. Það er tilgangslítið að taka þessa umræðu úr ræðustól, en það er auðvitað hætta á því að það verði gert ef menn setjast ekki niður og fara aðeins yfir málin. Það að menn komi hér og túlki hver á sinn hátt hvað gerðist og hvernig á að gera þetta er auðvitað leið til að fara í daginn. Það er alveg sjálfsagt og eðlilegt ef menn sjá ástæðu til þess, en það er augljóst af ræðum bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að það er full ástæða til þess að forustumenn þingflokkanna setjist núna niður og reyni að skipuleggja starfið á þessum næstu dögum. Ég legg til að það verði gert.