149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Á dagskrá þingfundar 19. desember 2017 var sérstök umræða um #ískuggavaldsins, #metoo. Þingmenn úr öllum þingflokkum tóku þátt og ræðumenn fordæmdu einróma ríkjandi ástand og áréttuðu mikilvægi þess að karlmenn hefðu frumkvæði að því að stuðla að bættu hugarfari meðal karla og stuðla þannig að betra samfélagi. Var rík samstaða meðal ræðumanna um að hafna hvers konar ofríki og ofbeldi í garð kvenna.

Í kjölfarið var gerð breyting á siðareglum þingmanna þar sem kemur m.a. fram í greinargerð, með leyfi forseta:

„Það er því eðlilegt og réttmætt, í ljósi þeirra krafna sem fram hafa komið, að í siðareglum fyrir alþingismenn komi fram sú meginregla að þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni, einelti og aðra ótilhlýðilega framkomu. Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni …“

HeForShe-hreyfingunni var ýtt úr vör fyrir fjórum árum hjá Sameinuðu þjóðunum, af leikkonunni Emmu Watson sem hvatti karlmenn til að láta til sín taka. Þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, tilkynnti 16. mars 2016 að íslenskir menn væru með frumkvæði og væru til eftirbreytni í HeForShe-átakinu. Þar er spurt: Hvað getur þú gert?

Svarið er einfalt: Gríptu inn í aðstæður þegar þú verður vitni að kynbundnu ofbeldi og áreitni.

Nýlega keypti ég húfu frá UN Women og á henni stendur: Vissir þú að þriðja hver kona í heiminum er beitt kynbundnu ofbeldi? UN Women á Íslandi kynnir nýja Fokk ofbeldi húfu. Með því að ganga með Fokk ofbeldi húfuna lofa ég að rísa upp gegn kynbundnu ofbeldi alltaf alls staðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)