152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Frumvarpið er á þskj. 759 og er 531. mál. Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér innleiðingu á þriðja og síðasta áfanga tilskipunar 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem nefnist í daglegu tali BRRD-tilskipunin. Í öðru lagi hefur frumvarpið að geyma breytingar sem ekki byggja á Evrópureglum heldur varða atriði sem ríki geta sjálf ákveðið. Þær breytingar frumvarpsins sem byggja á tilskipuninni varða fjármögnun og lánamál skilasjóðs en sá sjóður starfar samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Hlutverk skilasjóðs er að tryggja skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð fjármálafyrirtækja. Efni frumvarpsins um fjármögnun skilasjóðs byggir þó ekki einvörðungu á tilskipuninni þar sem fjármögnunarleiðin, sem lögð er til í frumvarpinu og ég vík að síðar í ræðu minni, gengur lengra en lágmarksreglur tilskipunarinnar kveða á um.

Breytingar frumvarpsins á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eru ekki innleiðing á Evrópureglum. Þær þykja hins vegar æskilegar ýmist í ljósi þess að skilasjóði er ætlað að starfa til frambúðar sem sérstök deild í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eða vegna þess að breytingarnar eru taldar einfalda eða skýra lögin ásamt því sem þær fella brott úrelt ákvæði.

Áður en ég vík að helstu efnisatriðum frumvarpsins vil ég nefna að í því kemur fram að eignir innnstæðudeildar íslenska tryggingarsjóðsins eru nú mun meiri en hjá sambærilegum deildum í ríkjum Evrópusambandsins. Í frumvarpinu er einnig rakið að TIF sjóðurinn hefur talsvert breytt hlutverk eftir tilkomu laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Með gildistöku þeirra laga, ásamt breytingum á öðrum lögum og reglum á bankamarkaði, hefur dregið verulega úr líkum þess að reyna muni á innstæðutryggingakerfi á sama hátt og gerði eftir bankahrunið 2008. Meðal þess sem leiðir af breyttum reglum er að gert er ráð fyrir að kerfislega mikilvægir bankar fari í skilameðferð lendi þeir í alvarlegum rekstrarvanda. Ef til skilameðferðar kemur er ekki gert ráð fyrir að innstæðudeild TIF greiði fjármuni beint til innstæðueigenda. Innstæðudeildinni getur verið gert að greiða fjármuni til skilameðferðar fjármálafyrirtækis en að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að sú greiðsluskylda virkist þykir ósennilegt að til þess komi. Ef til þess kæmi að greiðsluskylda innstæðudeildar myndi virkjast er kveðið á um hámark á greiðslum úr deildinni. Innstæðudeild TIF er því nú þegar vegna áður samþykktra lagabreytinga fyrst og fremst ætlað að standa til tryggingar innstæðum hjá lánastofnunum sem ekki er ætlað að fara í skilameðferð lendi þær í alvarlegum rekstrarvanda.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að helstu efnisatriðum frumvarpsins og eru þau þessi: Í fyrsta lagi kemur þar fram að TIF verði til frambúðar rekinn í þremur aðskildum deildum: innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóði. Ekki eru lagðar til breytingar á rekstrarformi sjóðsins og hann verður því áfram rekinn sem sjálfseignarstofnun.

Í öðru lagi er kveðið á um tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild TIF í skilasjóð þannig að stærð annars vegar innstæðudeildar og hins vegar deildar skilasjóðs eftir tilfærsluna verði hlutfallslega sú sama og milli lágmarkskrafna Evrópureglna. Þessi lágmörk eru annars vegar 0,8% og hins vegar 1% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana með starfsleyfi hér á landi. Eftir tilfærsluna verður skilasjóður því stærri en innstæðudeild sem nemur 25%. Tilfærslan nemur 26,3 milljörðum kr. en sú fjárhæð miðast við stöðu tryggðra innstæðna og eignir innstæðudeildar og skilasjóðs við árslok 2021. Eftir tilfærslu verður skilasjóður 2,67% af tryggðum innstæðum og innstæðudeild 2,13% af tryggðum innstæðum. Eignastaða beggja deilda verður því umtalsvert umfram lágmarkskröfur.

Í þriðja lagi hefur frumvarpið að geyma ákvæði um greiðslur lánastofnana á framlögum í skilasjóð. Á meðal þeirra ákvæða er tillaga um að tveimur reglugerðum ESB sem fjalla um aðferðafræði og útreikning á greiðslum í sjóðinn verði veitt lagagildi. Í frumvarpinu er þó skýrt tekið fram að framlög verði ekki innheimt í skilasjóð nema eignir sjóðsins fari undir lágmarkið, þ.e. 1% af tryggðum innstæðum. Ákvæði reglugerða ESB koma því að óbreyttu ekki til framkvæmda.

Í fjórða lagi er lagt til að greiðslur iðgjalda í innstæðudeild sjóðsins verði stöðvaðar að svo stöddu. Er það gert í ljósi sterkrar eignastöðu deildarinnar sem ég hef áður nefnt. Ráðherra skal upplýstur árlega með skriflegum hætti um afstöðu stjórnar sjóðsins til þess hvort aðstæður hafi breyst á þann veg að hefja þurfi aftur innheimtu á iðgjöldum í innstæðudeild.

Í fimmta lagi er kveðið á um breytingu á heiti Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Lagt er til að sjálfseignastofnunin fái nýtt heiti sem verði Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja. Breytt heiti er talið endurspegla betur starfsemi stofnunarinnar eftir þær breytingar sem fjallað er um í frumvarpinu.

Í sjötta lagi er lagt til að stjórnarmönnum í TIF verði fækkað úr sex í fjóra. Helstu verkefni stjórnar verða umsýsla og fjárvarsla deildanna þriggja. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Samtök fjármálafyrirtækja tilnefni einn stjórnarmann, Seðlabanki Íslands einn og ráðherra skipi tvo án tilnefningar og verði annar þeirra formaður.

Að lokum vil ég nefna að í frumvarpinu eru tillögur um að nokkur ákvæði í lögunum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta falli brott. Um er að ræða úrelt ákvæði sem ýmist eru á skjön við gildandi lög á fjármálamarkaði eða þjóna ekki tilgangi eftir þær viðamiklu breytingar sem orðið hafa á lagaumgjörð fjármálamarkaðar undanfarin ár.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu er kveðið á um tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild TIF í skilasjóð. Sú leið við fjármögnun skilasjóðs er hagkvæmur kostur fyrir bæði innstæðueigendur og lánastofnanir. Vel fjármagnaður skilasjóður er til hagsbóta fyrir innstæðueigendur og almenning þar sem sjóðnum er ætlað að tryggja skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð fjármálafyrirtækis. Eins og ég nefndi áður er skilameðferð það ferli sem gert er ráð fyrir að kerfislega mikilvægir bankar fari í lendi þeir í alvarlegum rekstrarvanda.

BRRD-tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn á árinu 2018 og hefur Eftirlitsstofnun EFTA hafið formlega málsmeðferð vegna tafa Íslands við að innleiða tilskipunina að fullu. Þá hefur stofnunin þegar ákveðið að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum vegna tafa Íslands við að innleiða eina reglugerð ESB sem sækir stoð í BRRD. Í frumvarpinu er að finna lagastoð til að hægt verði að innleiða þá reglugerð ESB með reglugerð ráðherra.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nefna að þrátt fyrir að efni þessa frumvarps varði breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þá felur það að engu leyti í sér innleiðingu á þriðju tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingakerfi. Sú tilskipun tók gildi í Evrópusambandinu á árinu 2014 en hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.