152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[20:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að NPA-miðstöðin hafi komið að þessu í gegnum Öryrkjabandalagið. Ég veit af fleiri málum að þeir sem eru við stjórn í NPA-miðstöðinni eru vel tengdir inn í Öryrkjabandalagið. Ég efast ekki um að ef Öryrkjabandalagið hefur skrifað upp á þennan samning hafi það verið í góðri samvinnu við NPA-miðstöðina. Landssamtökin Þroskahjálp eru þarna líka og ég veit að þessir aðilar hafa ekki farið í samninga um eitt né neitt nema vera alveg pottþéttir á því að þeir sem eiga að nota þjónustuna og þeir sem stjórna í NPA-samtökunum hafi fengið að koma að málum og fengið að koma sjónarmiðum sínum að. Þegar málið fer til velferðarnefndar mun ég auðvitað vilja fá þá aðila að málum og þá verður örugglega séð til þess að einhver frá NPA-miðstöðinni komi og fái að svara því hvernig þeir hafa komið að þessu, hvort þeir hafi komið öllum sínum málum að, hvort þeir séu sáttir við þetta. Mér sýnist á því sem verið er að semja um í þessu að þetta séu ákveðnar kröfur sem NPA er með og lagði fram á sínum tíma. Málið hefur verið að veltast um í kerfinu á hverju einasta ári síðan ég kom á þing. Við tókum á þessu NPA-máli á fyrsta árinu og ég trúi því statt og stöðugt að þeir hafi komið að þessu, en ég trúi því þó ekki fyllilega fyrr en ég er búinn að fá þá til að segja það.