154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Hér hef ég beint þeirri spurningu til hæstv. ráðherra sem sagst hefur vilja efla skaðaminnkandi úrræði í stað þess að samþykkja stærsta skaðaminnkunarmálið, afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta, hvernig hann hyggist beita sér til þess að tryggja lágmarksskaðaminnkun á Íslandi. Hæstv. ráðherra hefur skipað starfshóp, var svarið. Á meðan bíða einstaklingar í neyð á götum úti. Heilbrigðisstarfsfólk hefur kallað eftir faglegu verklagi og skýrari reglum í tengslum við skaðaminnkun. Lyfjafræðingar kalla eftir því að skaðaminnkandi lyfjameðferðir, líkt og tíðkast í öðrum löndum, verði skoðaðar á Íslandi. Þeir upplifa þörfina hjá sínum skjólstæðingum og finnst þeir vannýtt stétt. Ítrekað hefur verið bent á að núverandi kerfi setur heilbrigðisstarfsfólk í þá stöðu að þurfa að velja á milli þess að svíkja Hippókratesareiðinn og brjóta lög.

Forseti. Úrræðin eru til. Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Í áratugi hefur Noregur til að mynda staðið framar í þessum málum en við stöndum í dag. (Forseti hringir.) Því spyr ég hæstv. ráðherra, sem skipar starfshóp sem ekkert heyrist frá: Hvað tefur?