149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja síðari ræðu mína á að þakka fyrir góða umræðu og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að henni. Þó að þjóðir sem ekki eru ríkar að auðlindum, eins og t.d. Danmörk og Singapúr, hafi sannarlega meiri þörf fyrir að vera virkari í nýsköpun sjáum við það auðvitað í meiri áherslu á nýsköpun og stuðning við frumkvöðla. Ísland er svo heppið að vera í þeirri stöðu að vera ríkt að auðlindum en það er styrkleiki og tækifæri til að byggja á þekkingu okkar á auðlindum okkar, bæði tæknilausnir en ekki síður hvað varðar vöruþróun og þróun þjónustu með nýrri tækni eða lausnum.

Það eru þó ekki aðeins tækifæri til nýsköpunar í atvinnulífi heldur eigum við líka að líta til nýsköpunar í stjórnsýslunni, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Skemmtilegt dæmi um slíkt má finna í Blábankanum á Þingeyri þar sem samþætt hefur verið þjónusta ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, og sömuleiðis búið til rými til nýsköpunar. Þessa þurfum við að horfa til og er einmitt tækifærið fyrir jafn lítið land og Ísland að nýta smæðina.

Við eigum að vera óhrædd við að hugsa stórt og horfa til reynslu annarra landa hvað varðar að beita jafnvel skattkerfinu til að stuðla að uppbyggingu nýsköpunar. Við þurfum að skapa nýsköpunarstefnu sem stuðlar að sköpun heilbrigðs vistkerfis fyrirtækja og samfélaga.

Herra forseti. Það er svo margt í þessari umræðu sem gagnlegt væri að ræða ítarlegar en í grunninn eru skilaboðin þau að nýsköpun er hverju landi lífsnauðsynleg og okkur ber skylda til að gera betur til að styrkja hana. Í því samhengi hlýt ég að nefna, eins og áður hefur komið fram, vinnuna við nýsköpunarstefnu Íslands sem er í vinnslu en mikilvægt er að hún endurspegli þær áskoranir sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en sömuleiðis skiptir mjög miklu máli að fjármagn verði sett í hana til að fylgja henni eftir.