151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

áfengislög.

480. mál
[19:22]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998. Aðrir flutningsmenn en sá sem hér stendur eru hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Logi Einarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Þetta frumvarp er einstaklingsfrelsishliðin á því sem Íslendingar geta karpað um þegar kemur að fyrirkomulagi áfengisneyslu og -framleiðslu. Með þessu frumvarpi er nefnilega heimilað að stunda svokallaða heimabruggun, en margir borgarar þessa lands vita kannski ekki að það er bannað. Eins og rakið er í greinargerðinni er ástæðan fyrir því að þetta er lagt fram í sjálfu ekki sér sú að sá sem hér stendur hafi áhuga á heimabruggi, reyndar nákvæmlega ekki neinn og hefur aldrei haft og mun sennilega aldrei öðlast, en hins vegar er margt annað fólk í samfélaginu sem hefur mikinn áhuga á heimabruggun og stundar þá iðju í trássi við lög sem kveða á um allt að sex ára fangelsisvist fyrir slíkt brot.

Augljóst er að þessum lögum er ekki framfylgt af neinni sjáanlegri hörku, samanber það að fullt af fólki veit ekki einu sinni að þetta er bannað. Sömuleiðis hefur á síðustu árum, kannski síðastliðnum áratug, verið mikil gróska í íslenskri bjórframleiðslu, mjög mikið hefur orðið til af íslenskum bjór, alveg þannig að ferðamenn hafa sérstakan áhuga á því. Það skýtur því svolítið skökku við að forsendan fyrir þeirri þróun að íslenskur bjóriðnaður blómstri og gerjist er sú að viðkomandi aðilar sem læra að búa til þennan bjór brjóti fyrst lög með frekar þungum refsiramma. Þannig að hættan er sú að ef einhver yfirvöld eru í vondu skapi og taka upp á því að fara að framfylgja þessum lögum af hörku þá er ansi margt fólk, bara heiðvirðir borgarar sem taka þátt í að efla atvinnulífið, efnahagslífið og ferðaþjónustuna og íslenska menningu, skyndilega komið í afskaplega óþægilega lagalega stöðu. Og bara til að undirstrika hversu ómeðvitað samfélagið virðist vera um að þetta sé bannað yfir höfuð þá er starfrækt félag, Fágun, sem er félag áhugafólks um gerjun. Þetta félag starfar fyrir opnum tjöldum. Það kemur fram í fjölmiðlum. Það heldur keppni. Það hefur haldið keppni eða sýningu, man ekki hvort það var á Klambratúni eða annars staðar, og þangað komu fjölmiðlar og tóku viðtal við forsprakka hópsins. Ekki var gerð nein tilraun til að fela þetta og þetta var ekki haldið í mótmælaskyni við lögin. Þetta var bara fólk að nýta frelsi sitt til þess að gera það sem því þykir skemmtilegt að gera. Þetta sama félag hefur komið á nefndarfundi Alþingis undir því nafni til að ræða frumvarp um t.d. sölufyrirkomulag áfengis, sem er auðvitað umdeildara mál sem ratar af og til hingað inn í þingsal, og það skilar inn umsögnum og er ekki á neinn hátt að reyna að fela iðju sína eða áhugamál sín frekar en heimabruggarar almennt. Þetta misræmi milli þess að löggjöfin sé ströng en raunveruleikinn frjálslyndur býr til geðþóttavald hjá yfirvöldum, sem er ekki gott, er ekki hollt í lýðræðissamfélagi.

Nú get ég ekki annað en baunað aðeins á Sjálfstæðisflokkinn, sem heldur áfram að gaspra um frelsi hverja einustu kosningabaráttu. Hann má eiga það að hann stendur vissulega fyrir alls konar viðskiptafrelsi, þótt eitthvað grynnki nú á kapítalismanum þegar kemur að kvótakerfinu af einhverjum ástæðum. En þegar kemur að einstaklingsfrelsi verð ég var við mjög skýrt áhugaleysi. Málin snúast oft um hvort eitthvað megi selja eða hafa viðskipti með eða hvort eitthvað eigi að skattleggja og hversu hátt það er skattlagt. En hér erum við að tala um frelsi einstaklingsins til þess að gera eitthvað sem varðar þann einstakling sjálfan; fólk að brugga heima hjá sér, ekki til að afhenda öðrum, hvað þá fólki undir lögaldri, ekki til að selja það, reyndar ekki einu sinni að eima það — meira um það eftir augnablik — heldur hagar það sínu lífi á sínu heimili alfarið eftir eigin höfði án þess að angra einn eða neinn með þeirri iðju einni saman, í það minnsta. Svo er auðvitað víðfrægt hvaða áhrif áfengi getur haft á hegðunarmynstur fólks og skapgerð. En einstaklingsfrelsið er nokkuð sem mér finnst að við ættum að setja meiri fókus á hér á Alþingi frekar en bara viðskiptafrelsið.

Ég tel það nefnilega vera þannig á Íslandi að það hefur í sjálfu sér aldrei verið neinn brjálæðislegur áhugi á einstaklingsfrelsi á Íslandi. Einstaklingsfrelsi á Íslandi sýnist mér hafa mestmegnis snúist um að geta búið langt frá öðru fólki og ráðið yfir sjálfum sér, en ekki þannig að reglurnar sjálfar séu sérstaklega framsæknar. Það er ekkert sérstaklega mikill áhugi á því á Íslandi almennt. En þessu viljum við Píratar breyta. Við leggjum áherslu á einstaklingsfrelsið þegar við tölum um frelsi, ekki bara viðskiptafrelsi eða skattalækkanir eða hvaðeina sem Sjálfstæðisflokkurinn á við þegar hann talar um frelsi. Ég get ekki annað en nefnt þetta vegna þess að við Píratar fáum oft á okkur einhverjar pillur frá einstaka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að vera svo vinstri sinnuð og svo stjórnlynd vegna þess að við erum svo vinstri sinnuð. Gögnin bera þess þó ekki merki, virðulegi forseti. Píratar hafa verið að berjast fyrir því að hætta að refsa vímuefnaneytendum. Það voru Píratar sem lögðu til að hætta að refsa fyrir guðlast. Það eru Píratar sem leggja þetta mál til og það eru Píratar sem leggja höfuðáherslu á einstaklingsfrelsið hér á þinginu, eftir því sem ég fæ best séð. Þó að við séum ekki ein um það þá finnst mér mikilvægt að halda því til haga hvers konar frelsi fólk er að tala um þegar við förum í kosningabaráttu og munum berja okkur á brjóst fyrir að vera svo ofboðslega miklir unnendur frelsisins.

Að þessu sögðu ætla ég að láta ræðutíma minn eftir og legg til að þetta mál gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.