152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[18:23]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, en efni frumvarpsins snýr að vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð. Á undanförnum árum hefur verið í gildi bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem kveðið hefur verið á um að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum notendastýrða persónulega aðstoð á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Var þessi undanþága lögfest í framangreindu bráðabirgðaákvæði þar sem mikilvægt þótti að meta hvernig þessum málum yrði best háttað til framtíðar litið þar sem gætt yrði bæði sjónarmiða þeirra sem nýta sér þjónustuna og þeirra sem veita hana áður en breytingar eru gerðar á viðeigandi ákvæðum laganna. Umrætt bráðabirgðaákvæði féll úr gildi 1. apríl síðastliðinn og er í frumvarpinu lagt til að þess í stað komi inn nýtt ákvæði í lögin.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu er lagt til að í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði kveðið á um að í undantekningartilvikum verði heimilt með samningi milli þess sveitarfélags sem í hlut á og umsýsluaðila þess einstaklings sem við á hverju sinni að víkja frá almennum reglum laganna hvað varðar hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Meðal þess sem gert er ráð fyrir að litið verði til er að þjónustuþörf þess einstaklings sem í hlut á sé þannig að hann teljist þurfa aðstoð sama starfsmanns til lengri tíma en rúmast innan þess lágmarkshvíldartíma sem kveðið er á um í lögunum en þó þannig að viðkomandi hafi almennt ekki þörf fyrir mikla aðstoð starfsmanns á hefðbundnum næturvinnutíma. Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að taka sérstaklega fram að þar sem frumvarp þetta mælir fyrir um undantekningu frá lágmarksvernd hvað varðar hvíldartíma starfsmanna ber að túlka þröngt þau tilvik sem fallið geta hér undir þannig að undantekningin taki eingöngu til tilvika þegar aðstæður notendaþjónustunnar krefjast þess til lengri eða skemmri tíma. Tel ég það mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að fái starfsmenn ekki lágmarkshvíldartíma í samræmi við ákvæði laganna getur það valdið þeim heilsutjóni auk þess sem almennt má ætla að hætta á mistökum verði meiri með ófyrirséðum afleiðingum fyrir notanda þjónustunnar. Í skýringum með frumvarpinu er því tekið skýrt fram að ávallt skuli leita leiða til þess að skipuleggja umrædd störf þannig að þau rúmist innan hefðbundins vinnufyrirkomulags samkvæmt lögunum og séu þannig í samræmi við þær lágmarksreglur sem kveðið er á um í IX. kafla laganna en sá kafli snýr að hvíldartíma, frídögum og hámarksvinnutíma. Þá er í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að setja reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um framkvæmdina, svo sem um hve oft unnt verði að haga vinnutíma starfsmanna með þeim hætti sem umrædd undanþága mælir fyrir um. Er gert ráð fyrir að slík reglugerð verði unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnueftirlit ríkisins, en þess má geta að frumvarpið er unnið í samráði við framangreinda aðila.

Þar sem um er að ræða nýmæli í löggjöf hér á landi þykir mikilvægt að metið verði að tilteknum tíma liðnum hvernig til hefur tekist og þá jafnframt hvort þörf er á breytingum. Í ljósi þess er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði nýtt bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem mælt verði fyrir um að eigi síðar en fyrir árslok 2025 skuli hefja endurskoðun á umræddri undanþáguheimild. Er í því sambandi gert ráð fyrir að vinnan fari fram í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnueftirlit ríkisins. Er jafnframt við það miðað að vinnunni skuli lokið í síðasta lagi fyrir árslok 2026. Er þannig gert ráð fyrir að eigi síðar en við árslok 2025 hafi skapast nægjanlegt svigrúm til að hefja mat á því, í samráði við áðurnefnda aðila, hvort þörf er á breytingum á þeim reglum sem frumvarp þetta mælir fyrir um.

Virðulegi forseti. Notendastýrð persónuleg aðstoð er mikilvæg þjónusta sem getur skipt sköpum fyrir þá einstaklinga sem búa við þær aðstæður að þurfa að reiða sig á slíka þjónustu og um það getum við öll verið sammála. Ég geri ráð fyrir að við getum einnig öll verið sammála um mikilvægi þess að reglur um hvíldartíma og aðrar reglur sem settar hafa verið um vinnutíma þátttakenda á vinnumarkaði geti ekki síður skipt sköpum fyrir þá einstaklinga sem þar eiga í hlut, hvar sem þeir sinna störfum sínum. Það getur því verið vandrataður sá millivegur sem nauðsynlegt er að feta þar sem réttindi eins bitna ekki á réttindum annars.

Þrátt fyrir að sumum muni eflaust þykja of skammt gengið og öðrum of langt gengið hefur frumvarpið að mínu mati að geyma góð skref þegar kemur að því að heimila undantekningar í tilteknum tilvikum frá vinnutímareglum laganna þegar um er að ræða starfsmenn sem veita notendastýrða persónulega aðstoð. Við þurfum hins vegar að vera viðbúin því að einhverjir hnökrar geti komið upp í framkvæmdinni og þess vegna er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fyrrnefnd heimild verði endurskoðuð innan tiltekins tíma. Líkt og komið hefur fram hefur sú heimild til undanþágu frá vinnutímareglum laganna í umræddum tilvikum fallið úr gildi og legg ég því áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði afgreitt nú á vorþingi ef þess er nokkur kostur.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.