152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[20:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég skil áhyggjurnar vegna þess að ég hef líka þessar áhyggjur. Ég byrjaði í Péturs Blöndals-nefndinni um endurskoðun almannatrygginga. Maður sá þá skrifað að haft hefði verið samráð við hagsmunasamtök öryrkja, að haft hefði verið samráð við þennan og hinn. En samráðið fólst bara í því að kalla viðkomandi aðila á staðinn og láta þá setjast við borð og segja: Svona á þetta að vera. Síðan var skrifað að samráð hefði verið haft. Þetta þekki ég af öllum þeim störfum sem ég hef verið í í svona nefndum. Vinnubrögðin voru skelfileg. Það var eiginlega verið að búa til sýndarsamráð. Ég vona og ég held, ég hef trú á því, að slíkum vinnubrögðum sé lokið. Ég yrði hissa ef svo væri ekki. Ég sé það á því hvernig þessir samningar eru að greinilega er verið að reyna að ná því sem stóð út af á sínum tíma til að tryggja að þeir sem vinna við þessa þjónustu hafi öll réttindi, að engin hætta sé á að verið sé að brjóta á þeim vinnuréttindi og annað. Þar koma BSRB og ASÍ o.fl. að málum vegna þess að þarna er verið að búa til allt annað umhverfi en vanalega er á vinnumarkaði. Þetta er allt önnur vinna, allt annað umhverfi, allt önnur þjónusta og það þarf þennan sveigjanleika. Það var þessi sveigjanleiki sem mikið var tekist á um og mér sýnist þeir vera búnir að ná ákveðnum millivegi. Ég mun fylgja því eftir að þarna sé til staðar þessi millivegur eins og NPA-notendur vilja og þeir sem eru í forsvari fyrir NPA, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, að það sé rétt að þeir séu sáttir. Ef svo er þá er ég sáttur.