148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

stytting náms til stúdentsprófs og staða nemenda.

[12:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða fyrirspurn. Það ber auðvitað að taka það fram að þessar breytingar á framhaldsskólastiginu eru mestu breytingar sem hafa átt sér stað á framhaldsskólastiginu síðan það var sett á laggirnar. Þetta eru það umfangsmiklar breytingar þegar við erum að minnka skólann um 25%.

Ég vil fyrst segja það að við fylgjumst mjög vel með hvaða áhrif þessar breytingar eru að hafa. Mig langar að nefna að til að mynda í Verslunarskólanum er búið að gera könnun á meðal þeirra sem voru að klára þrjú árin og þeirra sem voru að klára fjögur árin, þ.e. hvernig þau standa námslega. Það kemur í ljós að það er mjög lítill munur á því hvort nemendur hafi klárað þrjú árin eða fjögur árin. Ég fékk þessar niðurstöður í hendurnar í síðustu viku.

Varðandi það hvort við séum að kanna hvernig nemendur hafa það í skólakerfinu þá hefur Menntamálastofnun verið að fylgjast með því. Það kemur í ljós að vanlíðan hefur verið að aukast. Þess vegna höfum við heilbrigðisráðherra tekið höndum saman og við erum að kortleggja það hvernig við getum greitt aðgengi að sálfræðiþjónustu á öllu framhaldsskólastiginu. Sálfræðiþjónusta er í boði mjög víða. Ég hef kynnt mér það í mörgum framhaldsskólum. Það kemur í ljós að sér í lagi þar sem sálfræðiþjónusta er í boði sem forvörn skiptir það gríðarlega miklu máli. Vellíðan nemenda eykst samhliða því. Við erum líka að láta skoða brotthvarfið. Við erum með verkefnistjórn hvað það varðar.

En það er annað sem ég vil nefna. Ég held að stærsta áskorunin varðandi styttinguna muni tengjast verk-, iðn- og tæknigreinunum vegna þess að styttingin á sér ekki stað með sama hætti hjá þessum greinum. Ég lít bæði á þetta aukna álag og hvernig þessar greinar koma út. Það er svolítið stór áskorun í þessu.