148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

endurskoðun skaðabótalaga.

[11:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra. Það er verið að endurskoða skaðabótalög og í þeim eru enn inni skerðingar gagnvart lífeyrissjóðum og það er verið að auka þær. Ef ég les orðrétt upp úr skaðabótalögum, með leyfi forseta, þá segir um varanlega örorku í 5. gr.:

„Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.“

Þarna er verið að taka lögþvingaðan og eignarupptökuvarinn sparnað fyrir tryggingafélögin. Síðan er annað í þessu sem er enn verra. Miski sem er líkamlegt tjón viðkomandi — þar er sú undarlega ráðstöfun að uppreiknað er með lánskjaravísitölu, sem enginn notar, lánskjaravísitölu sem gefur þeim sem verður fyrir miklum miska ekki neitt. Miska fylgja mjög lágar bætur. 100% miski gefur einstaklingi 4 millj. kr. Við erum að tala um einstakling sem lamast frá hálsi og niður úr. Bætur þess einstaklings eru uppreiknaðar með lánskjaravísitölu, ekki launavísitölu.

Hvernig stendur á þessu? Er það eðlilegt? Finnst hæstv. dómsmálaráðherra þetta eðlilegt? Ætlar hún að breyta þessu? Finnst henni eðlilegt að taka lögþvingaðan og eignarupptökuvarinn sparnað viðkomandi og nota hana fyrir tryggingafélögin sem vita ekki aura sinna tal í góðærinu? Ætlar hún að sjá til þess að þessu verði breytt, að þessi lánskjaravísitala fari út og launavísitala verði notuð þannig að fólkið fái nokkurn veginn réttar bætur?