149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

154. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru auk mín allir þingmenn Samfylkingarinnar.

Reglulega er talað um að fæðingarorlofslögin á Íslandi hafi verið byltingarkennd þegar þeim var komið á, að með þeim hafi verið stigið stór skref í jafnréttisátt. Í árslok 2012, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, var samþykkt breyting á lögum þessum þar sem kveðið var á um lengingu fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í 12. Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í maí 2013 var hins vegar horfið frá þessum breytingum. Foreldrar síðustu sex ára hefðu notið meiri tíma með ungbörnum sínum ef breytingin hefði náð fram að ganga. Síðan þá hefur Samfylkingin haldið þessu máli lifandi með því að leggja frumvarpið fram á hverju ári, þó með minni háttar breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra samkvæmt 3. málslið sömu málsgreinar verði tveir mánuðir.

Fyrir þremur árum skilaði starfshópur skipaður af Eygló Harðardóttur auk þess tillögum um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum. Þar var lögð áhersla á lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, eins og við höfum lagt til, og hækkun hámarksgreiðslna upp í 600.000 kr. á mánuði þrem árum síðar. Í janúar 2019 voru greiðslurnar hækkaðar en ekkert bólar á lengingu fæðingarorlofs, sem er ekki síður mikilvægt.

Frumvarp þetta er í samræmi við tillögur starfshópsins og hefur sitjandi ríkisstjórn raunar lýst áhuga á að fylgja þeim eftir og talað er um þær í stjórnarsáttmála. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin og stjórnarliðar taki málinu fagnandi.

Embætti landlæknis segir í umsögn sinni um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Aukin lengd fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði styður við heilbrigð tilfinningatengsl foreldra og barna og telst því mikilvæg aðgerð í þágu lýðheilsu. Í ljósi mikilvægis tilfinningatengsla foreldra og barna fyrir þroska og geðheilsu barna telur embættið enn fremur rétt að fæðingarorlof verði skilgreint sem réttur barns til umönnunar á fyrstu mánuðum lífsins …“

Lenging fæðingarorlofs hefði bein áhrif á lýðheilsu, fjölskyldulíf, vinnumarkað og jafnrétti í landinu. Lenging fæðingarorlofs er í samræmi við tillögur og málflutning þingmanna Vinstri grænna og raunar þingmanna úr flestum öðrum flokkum. Ég ætla því að talsverður samhljómur sé um þessa úrbót jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu. Þá er rétt að nefna að verkalýðshreyfingin styður líka þessa lengingu.

Ekki þarf að fjölyrða um það hversu dýrmætar barneignir eru hverri þjóð, fyrir utan þá gleði sem barnalán veitir flestum, enda hefur margoft verið talað um það hér að hlúa sem best að börnum og barnafjölskyldum. Allt of lítið hefur hins vegar verið gert í þessum málum. Dæmi um það eru vandræði á húsnæðismarkaði, sífellt minna vægi barnabóta og skortur á skilvirkum stuðningi sem gagnast ungum barnafjölskyldum á mikilvægu en oft mjög fjárhagslega erfiðu tímabili í lífi fólks, en 12.000 færri fá barnabætur nú en fyrir tíu árum. Sú litla hækkun sem ríkisstjórnin lagði til í fjárlögum er einungis brot af því sem þarf til að koma tilfærslu til barnafjölskyldna á réttan kjöl. Foreldrar geta orðið fyrir efnahagslegu tjóni vegna fjarveru frá vinnu. Það þarf því mikið fjárhagslegt svigrúm hér á landi til að eignast barn á meðan fæðingarorlofið er einungis níu mánuðir og hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði of lágar. Á meðan svo er er ekki víst að allir hafi efni á því að eignast börn. Það er mjög slæmt því að unga fólkið er dýrmæt auðlind sem mun draga vagninn næstu áratugina fyrir íslenskt samfélag. Og það borgar sig fyrir okkur að nesta þau sem best í þann leiðangur.

Það tímabil sem þarf að brúa frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst á leikskóla er of langt í dag og reynist mörgum fjölskyldum þungur baggi. Þegar best lætur bjóða sveitarfélögin upp á stuðning við dagvistun, þ.e. dagforeldra, sem er yfirleitt talsvert dýrara úrræði en leikskólagjöld. Í öðrum sveitarfélögum er bolmagnið hins vegar svo lítið að ekkert slíkt er í boði og því eru vandræðin enn meiri en ella. Þetta reynist líka þeim sveitarfélögum sem best gera talsvert þungur baggi sem þarf að huga að og bæði ríkið og vinnumarkaðurinn þurfa þess vegna að leggja miklu meira af mörkum.

Í úttekt BSRB kemur fram að tæplega fimmtungur landsmanna, 18,4%, býr í sveitarfélögum sem tryggja leikskólavist fyrir börn 12 mánaða eða yngri. Önnur sveitarfélög hafa lýst yfir vilja til að gera þetta og nokkur stigið markviss skref í þá átt en það þarf að aðstoða þau við það. Vel hefur árað hjá ríkinu undanfarin ár, en staða sveitarfélaga er hins vegar æðimisjöfn. Hún er þó að batna þannig að við ættum að geta unnið að þessu. En jafnvel þó að það sé bjart fram undan hjá sveitarfélögum er staða þeirra margra samt í járnum og þau hafa of lítil færi til að gera betur í málunum. Ég held að ekki verði mögulegt að lækka aldur inntöku í leikskóla til 12 mánaða aldurs almennt nema til komi veruleg aðstoð frá ríkinu, en það er seinni tíma mál að ræða það.

Í umræddri skýrslu er jafnframt lagt til að leitað verði leiða svo að unnt verði að bjóða öllum þessum börnum dvöl á leikskóla við 12 mánaða aldur. Það er ekki viðfangsefni í frumvarpinu, en vonandi verður það framhaldsviðfangsefni þingsins því að það er mjög mikilvægt mál. Fyrsta skrefið í þá áttina er hins vegar að brúa bilið og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þetta er ekki flókið skref og það er ekki óyfirstíganlegt. Önnur Norðurlönd hafa löngu stigið það og þar er auk þess tryggð samfella milli fæðingarorlofs og dagvistunar eða leikskóla.

Lenging fæðingarorlofs er líka mjög mikilvægt jafnréttismál. Þótt margt hafi verið fært til betri vegar á Íslandi er það enn staðreynd, því miður, að það er miklu oftar konan sem er heima með barnið og kemst ekki út á vinnumarkaðinn þar sem sá sem hefur lægri tekjurnar er líklegri til að vera heima með barninu. Því miður er staðan enn sú í samfélagi okkar, jafnvel þótt konur vinni jafn mikilvæga vinnu og jafnvel sömu störf eru þær á lægri launum.

Við stöndum í dag fremst allra landa þegar kemur að jafnrétti kynjanna, ekki síst vegna óvenjumikillar atvinnuþátttöku kvenna í alþjóðlegum samanburði. Fæðingarorlofskerfið okkar skiptir þar höfuðmáli, en það er ótrúlegt að við búum enn við það fyrirkomulag að konur hverfi mun lengur af vinnumarkaði en karlar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á stöðu þeirra.

Herra forseti. Staða einstæðra foreldra er mjög mikið áhyggjuefni. Í áðurnefndri skýrslu starfshópsins segir, með leyfi forseta:

„Annað af tveimur meginmarkmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof er að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, meðal annars með því að gera feðrum kleift að taka sér tíma frá vinnu til að verja með börnum sínum á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu þeirra án þess að verða fyrir tekjumissi að fullu.“

Það kemur fram í 2. mgr. 2. gr. laganna. Frumvarpið sem hér um ræðir ætti að styrkja það markmið því að hér er samhliða lagt til að samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði verði skipt með eftirfarandi hætti:

Fæðingarorlofsréttur mæðra verði fimm mánuðir, fæðingarorlofsréttur feðra verði aðrir fimm en sameiginlegur fæðingarorlofsréttur foreldra verði tveir mánuðir. Báðar breytingarnar sem frumvarpið tekur til eru í samræmi við tillögur starfshópsins frá mars 2016.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á jafnrétti kynjanna. Meðal þess sem sett verður á dagskrá í samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi.“

Það er mjög lofsvert að ríkisstjórnin leggi þetta mikla áherslu á jafnréttismál. Ég hef fulla trú á því, með hæstv. forsætisráðherra við stýrið, að því verði fylgt eftir. Ég tel hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða. Þetta mikilvæga framfaraskref á ekki að vera skiptimynt í kjarasamningum heldur hluti af grunnkerfi okkar sem á ekki að þurfa að véla með eftir því hvernig vindar blása í launamálum fólks.

Ég vonast þess vegna eftir því að hér náist nokkuð breið samstaða um frumvarpið og það verði að lögum fyrr en seinna. Að lokum legg ég til, þegar þessari umræðu er lokið, að málinu verði vísað til velferðarnefndar til frekari úrvinnslu og umfjöllunar.