151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í tilefni orða nokkurra þingmanna hér sem telja málið svo einfalt að annars vegar séu nefndarfundir opnir og hins vegar lokaðir, langar mig aðeins að nefna millileiðina, sem ég hélt að við þekktum öll. Hún er þessi: Starfsreglur fyrir fastanefndir Alþingis, 4. mgr. 12. gr., með leyfi forseta:

„Nefndarmanni, og öðrum er sækja nefndafundi, er óheimilt að hafa eftir opinberlega ummæli er fallið hafa á lokuðum nefndarfundi, sbr. 1. mgr., nema hans sjálfs eða með leyfi þess sem þau viðhafði.“

Þetta vitum við. Þetta hefur ekki verið rofið. Og svo segir áfram:

„Jafnframt geta gestir í upphafi fundar óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess.“

Ég sit í velferðarnefnd. Þess var ekki óskað og við vorum öll, nefndarmenn, í fullum rétti til að túlka það sem fram kom efnislega á þeim fundi. Það var það sem var gert og það færi betur á því ef meiri hlutinn hér inni hefði meiri áhyggjur af því sem fram kom efnislega á fundinum en hvernig og hverjir greindu frá því og hvenær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)